Miðvikudagsmorgun í síðustu viku, 19. ágúst, var lagt upp í það sem átti að vera vikulöng útilega um fjallasvæði Alpanna og Dólómítafjöll Ítalíu. Við höfðum ekið í um hálftíma þegar við áttuðum okkur á því að það væri betra að hafa vegabréfin meðferðis þegar heimsækja ætti fjögur lönd, því var snúið við og þau sótt. Reyndar höfðum við líka lent í því að hraðbrautin virtist lokuð, svo við vorum farin að aka á sveitavegum.
Eftir smá útúrdúr heim aftur, var haldið af stað á ný og leið inn á hraðbrautina fundin. Leiðin lá suður á bóginn og aftur var lokuð hraðbraut – ekki átti að hleypa okkur inn í Sviss auðveldustu leiðina, að lokum hafðist það þó og við renndum í gegnum landamærin án nokkurra vandkvæða og héldum suðurferðinni áfram. Áfangastaðurinn var Kandersteg í Berner Oberland, þar sem við höfðum frétt af fallegu tjaldstæði. Kandersteg er í næsta dal við Simmental, suður af Thun og Thunersee.
Engu hafði verið logið til um fegurðina og fengum við pláss í fjallshlíðinni og gistum því í um 1200 metra hæð yfir sjávarmáli. Í hlíðinni fyrir ofan okkur var kindahjörð með bjöllur og hjalandi lækur við tjaldstæðið. Eftir að tjaldið var risið fórum við með kláfi upp í um 1700 m hæð og sáum að ef við vildum ganga svo sem 1000 metra upp gætum við skellt okkur á veitingastað! Niðurstaðan var þó að gera það ekki. Við tókum kláfinn aftur niður og fengum okkur kvöldmat á veitingastað tjaldstæðisins, hjónin fengu unaðslegt Fondue og krakkarnir spaghetti. Það kólnaði mikið þegar sólin var sest og komu íslenskar lopapeysur sér vel – einnig í morgunkulinu daginn eftir.
Á fimmtudegi ókum við yfir í Simmental, í gegnum Zweisimmen, Blankenburg og upp til Lenk – að skoða fornar slóðir frúarinnar frá Au-pair dvölinni fyrir rúmum 20 árum! Einnig ókum við yfir í Gstaad og ímynduðum okkur hvernig það væri að vera ofboðslega ríkur og frægur. Þaðan fórum við til Adelboden sem er í svakalega þröngum og fallegum dal.
Þegar til Kandersteg var komið aftur fórum við og keyptum í kvöld- og morgunmat og skelltum okkur í sund. Vatnið átti að heita 26° heitt og var vissulega heitara en 24° heita laugin við Bodensee – en kalt var það. Kvöldmaturinn átti að vera grillaðar pylsur, en einnota grillið okkar vildi ekki taka þátt í því – ekki virtist nokkur vegur að ná loga í kolin þó blásið væri duglega, reyndar svo duglega að gat kom á botninn á því. Það náðist þó nægur hiti til að hita pylsurnar en undarleg tillit fengum við frá nágrönnunum við aðfarirnar.
Föstudaginn hófum við á því að pakka niður, því nú skyldi haldið til Ítalíu. Frá Kandersteg gengur bílferjulest í gegnum fjallið Lötschberg og tekur um 20 mín að fara í gegnum fjallið. Bíllinn er keyrður upp á opinn lestarvagn, allir sitja í bílunum sínum og svo er ekið um í kolniðamyrkri í gegnum fjallið! Ótrúlega skemmtilegt og styttir ferðatímann svakalega mikið.
Hinum megin við fjallið er Lötschental og þar getur maður séð mörkin á milli franska og þýska hluta Sviss, byggingarstíllinn er ekki sá sami. Áfram var haldið og stefnt að annarri lest yfir til Ítalíu frá Simplon, það var rúmlega klukkutíma bið eftir brottför svo við lögðum í háfjallaakstur yfir fjallgarðinn í gegnum Simplon Pass. Það var stórfengleg leið sem liggur yfir 2000 m á milli fjallatoppa sem gnæfa yfir í ríflega 3000 metrum. Í einum afviknum háfjalladal sáum við eitthvað sem líktist heimavistarskóla og datt okkur helst Breiðavík í hug vegna einangrunarinnar. Flóran var íslensk á að líta, lágróður, lyng og stöku kræklótt birki.
Leiðin lá svo framhjá Domodóssola og allt niður að Mílanó þar sem við sáum óopinbera hitamæli upp á 38° – okkur var heitt! Stutt stopp voru tekin hér og þar á leiðinni til að rétta úr sér og taka myndir, en áfram var haldið norður með Lago d’Iseo og allt upp til bæjarins Edolo þar sem við tjölduðum í þessum fallega bæ þar sem flestir ferðamennirnir eru Ítalir.
Tjaldið var sett upp með útsýni yfir borgina, þar fórum við á veitingastað og gengum um miðbæinn, sáum til dæmis dánartilkynningu á kirkjudyrum, veitingastað þar sem veröndin var yfirbyggð með vínberjarunnum svo berjaklasarnir héngu niður. Toppurinn á þessu tjaldstæði var að rétt við okkar tjald var afgreiðslan þar sem hægt var að sitja úti við borð, sötra drykki og lesa og vera samt í sjónmáli við tjaldið og nýttum við hjónin okkur það þegar krakkar voru sofnaðir.