Á föstudaginn var þrifið og fannst þeirri snöggu alveg ótrúlegt hvað þyrfti að þrífa oft! Ekki nema tvær vikur síðan hún þurrkaði síðast af!
Eftir hádegið var lesið, sú sveimhuga las bæði íslensku og þýsku – svo var farið í búðarferð og keypt inn til baksturs. Þaðan brunuðum við til Holtzgerlingen í smá heimsókn til nágrannans fyrrverandi.
Í gær fór frúin með amerísku frúnni (báðar barnlausar) á flóamarkað í morgunsárið, örlítið verslað og verður atriðið endurtekið fljótlega. Franskur samstarfsfélagi bóndans kom í hádegisgrautinn, ungur piltur sem þjálfar mýs þessa dagana, hann talar frensku. Að graut loknum hófst bakstur, aðrir heimilismenn en frúin voru rekin á dyr meðan snúðar, skinkuhorn, afmæliskaka og súkkulaðibitakökur rúlluðu út úr ofninum.
Í dag var haldið upp á afmæli frumburðarins, enda styttist í níu ára afmælisdag þeirrar sveimhuga. Hafði hún vaknað eldsnemma bæði í dag og í gær vegna spennings. Hingað komu vinnufélagar bóndans með dætur, ameríski kvenpeningurinn og gamli granninn með fjölskyldu. Mikið gaman og fjör og næstum því engar myndir teknar!
Á morgun hefst svo skóli þeirrar sveimhuga og leikskóli þess skapmikla. Þess má geta að eftir hádegið í dag fóru þeir feðgar í örlítinn hvíldarrúnt, þegar þeir voru að keyra út úr götunni sagði sá stutti „pabbi, ert þú að keyra?“