Skólaupphaf

Á mánudaginn var hófst nýr kafli hér á heimilinu, sú sveimhuga byrjaði í 3. bekk í Grundschule an der Wanne og sá skapmikli í skógarmúsahópnum í Kindergarten Waldhaus.

Í bekk þeirrar sveimhuga eru 7 stelpur og 10 strákar, 3 stelpnanna eru þýskar, ein íslensk, ein amerísk, ein kínversk og ein frá Rúmeníu.  Sú sveimhuga er afskaplega ánægð, í dag var hún seinust út úr tíma og þegar pabbi hennar fór að athuga með hana var hún upptekin við að spjalla við kennarann sinn – á þýsku að sjálfsögðu!

Sá skapmikli hefur verið 3 daga með frúnni á leikskólanum, í dag fór frúin út í um hálfa klukkustund.  Á morgun verður hann einn í klukkutíma og svo tvo á föstudaginn.  Vonandi má hann mæta klukkan átta á morgnanna svo frúnni verði eitthvað að verki í vetur með námið sitt.

Leikskólinn er hálfgerður geymslustaður, ekkert skipulagt starf í gangi, krakkarnir leika sér bara að því sem þau vilja þar og þegar þau vilja – ekkert verið að fylgjast allt of mikið með þeim.  En sá skapmikli er sáttur, brosir og kinkar kolli þegar við hann er talað.  Hann sækir nestið sitt og borðar í matkróknum þegar hann er svangur, rétt eins og hinir krakkarnir, situr þokkalega kyrr í hringnum þegar sagan er lesin og segir „ja“ og „nein“ eins og þau þegar hópurinn er spurður að einhverju.

Deildin hans er flott, mikið skreytt og skemmtileg.  Daglega má sjá íkorna skjótast um í trjánum fyrir utan.

Sú snögga hefur verið heima það sem af er viku, með pabba sínum í dag og á mánudaginn var.  Í gær í heimsókn hjá amerísku vinkonunni.  Á morgun er svo stóri dagurinn hjá henni, fyrsti skóladagurinn, messa í upphafi og svo farið í skólann með tösku og Schültute.  Mikil spenna – í þeim bekk verða 19 stelpur og 7 strákar, einn auka kennari fyrir útlendu stelpurnar 3, þá íslensku, amerísku og svo er ein grísk líka.