Tannleysi

Gærdagurinn var óvanalega tíðindamikill, af mánudegi að vera.  Börnin fóru í leikskóla og skóla líkt og vanalega, bóndinn í vinnuna og frúin í heilsubótargönguna.  Hún tók nokkrar myndir sem koma eftir augnablik inn á síðuna.

Sá skapmikli var sæll og glaður að loknum leikskóla, hann lék meðal annars við vondu stelpuna sem frúin hefur ekki fengið nánari skýringu á, hvorki nafngiftinni né öðru.  Sú snögga kom gleiðbrosandi út úr skólanum – og tannfærri en fyrr um morguninn!  Loksins datt framtönnin sem hún hafið vandlega passað upp á að nota sem minnst undanfarið hálft ár svo hún dytti ekki.  Sú sveimhuga var glöð og sæl eftir þýskutímann sinn og þeirrar amerísku, þær eru tvær saman í einum tíma á viku núna í upphafi kennslu.

Eftir hádegið og lærdóm fóru krakkar út að leika sér við amerísku stelpurnar niðri á leikvelli.  Svolítilli stundu síðar fékk frúin tölvupóst frá amerísku frúnni um að sá skapmikli væri kominn í heimsókn þangað – einn.  Hann hafði labbað upp af leikvellinum, inn í réttan stigagang og bankað á réttar dyr, vel af sér vikið í óþekktinni!  Ég bað um að honum yrði hent út til stelpnanna aftur.

Seinna um daginn fékk frúin aftur tölvupóst frá þeirri amerísku, hún sagði að drengurinn hefði verið hinn prúðmannlegasti, gengið um, bent á hluti og sagt „was ist das?“ fengið svar á ensku og endurtekið það jafn óðum.  Eldri stelpan kom svo inn skömmu síðar og tók hann með sér út (hann sagðist að vísu hafa fengið ís, en það fylgdi ekki sögunni í póstinum).  Var hann hinn ánægðasti með afrek dagsins.

Í morgun þakkaði frúin svo sínu sælasta fyrir að Þjóðverjar skilji ekki íslensku, þegar sá skapmikli lýsti útliti ungrar konu í biðskýlinu hjá Penny á mjög hreinskilinn hátt.  Þegar hann var atyrtur fyrir orðalagið sagði hann bara endurtekið, „já, en hún er með stóra bumbu!“

Eftir hádegið fórum við í heimsókn til fyrrverandi nágrannans, þangað sem við förum svo í afmælisveislu um helgina.

Markverðast í dag var þó frétt um nýja frænku uppi á Íslandi.