Ja, þessi vika hefur algjörlega flogið hjá!
Á miðvikudaginn var lítið heimanám, svo við skruppum með amerísku stelpunum yfir til Echingen á leikvöllinn fína þar og skemmtu krakkarnir sér konunglega öll og við frúrnar spjölluðum heilmikið.
Á fimmtudaginn var mikið heimanám, það virðist vera reglan að þriðju- og fimmtudagar eru þungir í heimanámi en hinir dagarnir skárri, svo hér var lært meira eða minna fram að kvöldmat – reyndar aðeins leikið úti á svölum í góða veðrinu.
Á föstudögum eru fimleikar, svo seinni parturinn fer í það og hangs í bænum fyrir þá sem eru ekki í tíma. Fundum einn leikvöll sem verður örugglega heimsóttur aftur.
Á laugardaginn var afmæli hjá litla syni nágrannans fyrrverandi, við höfðum ráðgert að á meðan ég bakaði svolítið fyrir hana færi bóndinn niður í bæ, keypti afmælisgjöf og smotterí sem vantaði til heimilisins. Reyndar höfðum við líka rætt það í vikunni að 3. október væri sameiningardagur Þýskalands, sem sagt þjóðhátíðardagurinn hér.
En 2 og 2 voru aldrei lagðir saman, svo neðan úr bæ hringdi bóndinn og spurði frúna hvaða búðir hún héldi að væru opnar á þjóðhátíðardegi! Gjafalaus mættum við því í afmælið, en þó með köku meðferðis, pakkinn fer þá bara með í næstu ferð.
Afmælið var svo skemmtilegt, að heim var ekki komið fyrr en um 9, þá var soðinn grautur ofan í gemlinga og þau send í rúmið.
Í gær byrjuðum við daginn í „brunch“ hjá vinnufélögum bóndans, þar var einnig önnur fjölskylda, faðirinn af indverskum uppruna en alinn upp af diplómata um allan heim. Hann upplifði það sem forréttindi að hitta Íslendinga, þar sem svo fá eintök væru til í heiminum, þá væri þetta merkilegt!
Eftir hádegið brunuðum við til Heidelberg þar sem móðursystir bóndans og maður hennar voru í heimsókn, áttum við skemmtilegan dag með þeim hjónum og gestgjöfum þeirra. Heimferðin var farin í myrkri og börn borin inn í rúm um tíuleitið.
Þrátt fyrir erilsama helgi var dagurinn í dag góður, aukatími í fimleikum hjá þeirri sveimhuga vegna fyrirhugaðrar sýningar eftir mánuð og allir glaðir í skóla og leikskóla í dag.