Foss og ammælis

Þriðjudagurinn rann hjá, átakalítill, heimanám unnið rösklega og leikið.

Í gær var lítið heimanám eins og oft á miðvikudögum og var lagst í ferð með ameríkönunum af því tilefni.  Förinni heitið til Bad Urach, sem er í um hálftíma aksturs fjarlægð, handan Reutlingen.  Þar vorum við frúrnar búnar að frétta af kastalarústum og fossi sem gaman væri að skoða.

Þegar við komum að bílastæðinu sáum við að ganga upp að rústunum var ríflega það sem við vorum búnar til, svo fossinn yrði að duga í þetta skiptið.  Gangan upp að honum var þó nokkur spölur og töluvert upp í móti í lokin.  Þegar við vorum komin að rótum fossins (sem er óttarleg spræna, en fallegur) sáum við stíg sem lá lengra upp, frúin og og sá skapmikli áðu þó í svolitla stund meðan hinir göngugarparnir fóru í brattann.  Þegar það dróst að þær kemu niður aftur lögðum við mæðgin í klifrið, sá skapmikli gafst reyndar fljótt upp á göngunni, fór á háhest, en frúin gafst fljótt upp á því.

Drengurinn var því settur á bakið, innan við bakpokann og dröslað þannig upp hlíðina.  Þar voru stelpur að sulla, bættist hann í hópinn og léku þau sér þar til sú snögga datt næstum því á kaf – þá var kominn tími á heimferð.  Sá skapmikli var sæll í sínum heimagerða bakstól á niðurleiðinni (læri frúarinnar ekki alveg eins sæl þegar heim var komið).

Í gærkvöldi var foreldrafundur hjá þeirri sveimhuga, henni var hrósað fyrir þýskukunnáttu og frúin var gáttuð á teiknihæfileikum dótturinnar.

Í dag var svo afmæli, frúin vakin með bögglum, pósturinn kom færandi hendi, Snjáldurskinnan full af kveðjum, símtöl og almenn gleði.  Eftir hádegið kom sú snögga heim með dauða mús sem hún fann á heimleiðinni, þrifið og bakað með heimanáminu og gestir í afmæliskaffi.  Veislan endaði með jarðarför áður en frúin mætti í tíma við HÍ í gegnum Skype.

Daginn átti svo að enda með ferð á veitingastað, en sá skapmikli hafði ekki heilsu í það, svo maturinn var tekinn með heim.  Ljúfur dagur í heildina.