Á föstudaginn var sá skapmikli heima hjá frúnni, hann var lágreistur fyrri hluta dags, en hresstist þegar leið á daginn. Bóndinn sótti systur og keyrði í fimleikana, ameríska frúin sá um þá snöggu á meðan sú sveimhuga var í tíma og öfugt. Gott að eiga góða að. Eftir kvöldmat var horft á sjónvarpið, ein tönn rifin úr þeirri snöggu og krökkum komið í ból. Síðan fór bóndinn að huga að fyrirhugaðri heimferð vegna skóla og vinnu.
Kom í ljós að best væri fyrir hann að skreppa í lok mánaðar, en þá er einmitt vetrarfrí í skólanum hér. Var því tekin skyndiákvörðun um að drífa alla upp á skerið í eina viku og hann stoppar nokkra daga umfram. Allt er græjað, gistingu reddað, frúin tekur viðtöl vegna meistaraverkefnis, bestu vinkonur pantaðar og allt eins og best verður á kosið.
Í gær skrapp fjölskyldan í bíltúr í Svartaskóg, ferðinni var heitið í fataverslun og hjónin dressuð upp í Tracht (lederhosen og allt fyrir bóndann og dirndl fyrir frúna) – myndir verða birtar síðar. Hugmyndin var að fara svo í eins konar Árbæjarsafn, en veðrið lék ekki við okkur svo við fórum aftur heim, poppuðum og buðum amerísku fjölskyldunni á Mama Mia og kvöldmat. Hinn ánægjulegasti dagur.
Í dag voru það svo rólegheit og afslöppun, gengið frá ýmsu hér heima sem setið hefur á hakanum, ein tönn datt hjá þeirri snöggu, gengið upp að bóndabæ, kastaníur týndar og prjónaðir inniskór.
Nú hefst svo niðurtalningin í heimferð 🙂