Annríki hversdagsins

Þá er næstum því liðin vika frá því síðast og svo margt hefur gerst en þó ekki.

Á föstudaginn datt sjötta tönnin hjá þeirri snöggu, nú er hún ekki með neitt bit í framtönnunum (og þriðja framtönn í efri gómi að byrja að losna).  Stelpur fóru í fimleika og við á bókasafn.

Á laugardaginn vorum við ekki viss um hvað við vildum gera, það var ekki mjög skemmtilegt veður, blautt og hvasst,við fórum til Hirschau í leikjahöll þar sem eru hoppukastalar.  Krakkarnir skemmtu sér konunglega og við fengum versta eplasafa að drekka sem sögur fara af.

Sunnudagurinn var líka óráðinn, það átti að vera flugdrekahátíð í Österberg, en ekkert var í gangi þar vegna logns þegar við komum þangað eftir hádegið.  Því ókum við yfir til Breitenholz þar sem átti að vera flottur leikvöllur, hann fannst ekki svo við fórum til Entringen á góða leikvöllinn þar og lékum um stund.

Þaðan fórum við inn í Schönbuch í Saurucken þar sem voru villisvín og fínt leiksvæði í þægilegri göngufjarlægð frá bílastæðinu.  Við þurftum svo að vera komin frekar snemma heim, því við áttum von á gesti í mat.  Væntanleg barnapía er stúdent hér við háskólann, býr stutt frá okkur og er til í að passa einhvern tíma fyrir okkur.  Bóndinn fann sálarsystur í aðdáun á Folksmusik og skiptust þau á tónlist.  Krakkarnir voru yfir sig hrifin.

Á mánudaginn var heimanám og lítið annað gert.

Í gær skrapp frúin til litlu Ameríku með fyrrverandi nágrannanum og verslaði svolítið.  Bóndinn sótti krakka og dauð mús fylgdi með frá leikskólastígnum.  Eftir að frúin var komin heim fóru krakkar niður á leikvöll og léku í laufhrúgunni.  Foreldrafundur var um kvöldið og eru svoleiðis fundir ekki undir tveimur klukkustundum og mikið rætt – umræðurnar fara flestar fyrir ofan garð og neðan hjá frúnni, en kynninguna túlkaði hún yfir á ensku fyrir amerísku mömmuna.

Í dag var söngæfing í leikskólanum fyrir ljóskerjahátíð heilags Martins sem er 11. nóvember.  Krakkarnir búa til ljósker í leikskólanum og svo er gengið um skóginn og sungið.  Eftir sönginn léku krakkarnir sér á leikvelli við leikskólann og svo í laufunum hér heima.  Undir kvöld fórum við og ameríska fjölskyldan til einnar þýskrar fjölskyldu hér í hverfinu þar sem við vorum boðin í mat, yndælis laukböku og jólaís (með muldum piparkökum!).  Algjörlega ljúffengt!

Nú styttist í Íslandsferð og allir eru yfir sig spenntir.