St. Martin og Blautopf

Enn líður tíminn, þriðjudagur var hefðbundinn með kvennakaffi að morgni, heimalærdómi eftir hádegið og skókaupum seinni partinn.

Á miðvikudaginn skrapp frúin með gamla nágrannanum til litlu Ameríku að versla seríos og svoleiðis góðgæti, nágranninn kom svo í heimsókn með sína stráka, við fjórum á bændamarkað í bænum og á leikvöllinn í gamla Grasagarðinum.  St. Martin var þann dag, en við gerðum ekkert til að halda upp á hann þá.

Á fimmtudaginn gerðum við það hins vegar, deild þess skapmikla og önnur til fóru í ljóskerjagöngu eftir myrkur – í kringum leikskólann, stoppað á nokkrum stöðum og sungið.  Fyrir gönguna var brúðuleikhús og eftir labbið var heitt kakó og brauð fyrir utan skólann, ákaflega huggulegur siður.

Á föstudaginn voru aftur fimleikar hjá systrum og eftir það fór fjölskyldan í sund – frúin byrjaði sundkennslu vetrarins, markmiðið er að sú snögga verði synt í vor.

Í gær var jólagjafaleiðangur – allar gjafir sem fara heim á klakann voru keyptar, pakkaðar inn og gengið frá, fara í sjópóst á morgun.

Í dag var afslöppun og smá jólakortaföndur fyrir hádegið, eftir hádegið fórum við til Blaubeuren að skoða Blautopf sem er ein af stærstu uppsprettulindum Þýskalands, ákaflega fallegt, ameríska fjölskyldan kom með okkur.

Sögur af krökkunum:

Um daginn var sú sveimhuga að segja frá einhverju sem gerðist á Íslandi, hún var spurð hvort það hefði gerst heima, en hún svaraði með hálfgerðri hneikslan – „nei, það var ekki heima, það var á Íslandi!“  Nokkuð ljóst hvar heima er í hennar huga.

Sú snögga tók þátt í uppákomu á sal í skólanum á miðvikudaginn var, allir fyrstu bekkingar áttu að kynna sig og segja í hverju þeir væru góðir (tala í hljóðnema og allt!).  Hún fór með perl og ætlaði að sýna það en fann ekki þegar í skólann var komið, fór aðeins að skæla, en kennarinn hennar benti henni á að hún gæti sagt að hún væri góð í íslensku og sagt eitthvað á íslensku.  Þannig reddaðist það og var óskaplega gaman að tala fyrir framan alla krakkana.

Sá skapmikli heldur áfram að vinka og heilsa öllum sem hann mætir, í IKEA um daginn hnippti hann í starfskonu og sagði kampakátur „Das ist mein papa!“ og benti á pabba sinn.