Hápunktur mánudagsins fyrir viku var sennilega búðarferð – keyptar buxur á stúlkur, eftir þrælavinnu við að föndra jólakort.
Á þriðjudaginn skruppum við til fyrrverandi nágrannans eftir skóla og skemmtum okkur vel.
Á miðvikudaginn fórum við með ameríkuskvísunum í skógarferð að safna könglum og enduðum á leikvellinum í Wanne. Á fimmtudag var mikill heimalærdómur.
Á föstudag var stuttur skóladagur vegna starfsdags og leikskólinn var lokaður af sama tilefni. Eftir hádegið voru fimleikar og sund eins og vanalega.
Á laugardaginn var fóru krakkar í svínaflensusprautu og kríuðu út Playmobil dagatöl eftir það. Eftir hádegið bakaði frúin vanilluhringi og kornflexkökur og setti krem í IKEA piparkökur, með dyggri aðstoð krakkanna á meðan bóndinn leysti próf inni í herbergi.
Í gær fórum við í göngutúr eftir hádegið, heimsóttum leikvöllinn við Waldorfskólann í Waldhausen og annan leikvöll til þar í hverfi.
Í dag var rok og frúin dreif krakkana út með flugdrekana þeirra, sú snögga var á því að það væri of hvasst fyrir drekann sinn og vildi helst ekki láta hann fljúga. Drekar þeirrar sveimhuga og þess skapmikla flækturst saman á meðan frúin ræddi við þá snöggu, sá skapmikli missti takið á sínum en sú sveimhuga náði honum aftur, en við það slitnaði hennar af bandinu og fauk í burtu með viðeigandi svipbrigðum eigandans. Frúin náði þó drekanum aftur, batt á bandið og áfram flugu þeir þangað til sólin lækkaði sig og kólnaði úti.
Á miðvikudaginn kemur verður málað á piparkökur í góðra vina hópi – að vísu verður bóndinn þá á leið til Toulouse á fund og kemur aftur heim á laugardaginn. Á fimmtudaginn erum við boðin til vina fyrrverandi nágrannans í Þakkargjörðarmáltíð – spennandi vika framundan, fullt að gera og svo fer aðventan að skella á.
Anda svo djúpt og njóta aðventunnar, ljósanna og vináttunnar.