Enn ein vikan flogin hjá.
Á þriðjudaginn var gerðist ekkert markvert, fyrir utan að bóndinn undirbjó utanlandsferð og frúin hnoðaði piparkökudeig.
Á miðvikudag fór bóndinn í ferðina til Toulouse og hingað heim komu 8 krakkar og 3 mömmur í piparkökumálun, bakaðar voru um 300 kökur og skreyttar, eftir það var súpa og pizza í matinn fyrir alla hersinguna. Mömmurnar voru sendar heim með súpu handa bændum sínum. Sú sveimhuga var svo ánægð með daginn að hún gat ekki gert upp hug sinn með hvað hafði verið skemmtilegast.
Á fimmtudag vorum við boðin í Þakkargjörðarmáltíð til amerískra vina fyrrverandi nágrannans í nálægu bæjarfélagi. Þar átu allir yfir sig af ljúffengum mat og áttum góða stund með yndælu fólki.
Á föstudaginn voru fimleikaæfingar og sund eins og vanalega.
Á laugardaginn var jólaskemmtun í fimleikunum, sú sveimhuga var mús og sú snögga var lítill krakki – stóðu þær sig eins og hetjur og höfðu virkilega gaman af. Það var frábært að sjá alla hópana leika listir sínar. Þegar við komum heim þaðan var bóndinn kominn heim. Um kvöldið var aðventukvöld í sjónvarpinu.
Í dag var stíf dagskrá – síðasta smákökusortin bökuð í morgunsárið, skroppið á jólamarkað í Hohenzollern kastala um hádegisbilið, steiktar pönnukökur fyrir kaffið og hingað kom íslensk/þýsk/ameríska fjölskyldan. Við sungumst á um stund og nutum samverunnar, eftir matinn var svo sungið „Við kveikjum einu kerti á…“ um leið og við tendruðum fyrsta aðventuljósið.