Jólamarkaðir

Og enn nálgast jólin, á mánudaginn var sund hjá þeirri sveimhuga og heimanám fram að kvöldmat eftir það.

Á þriðjudaginn var dúllað heimavið eftir skóla, smá föndur og dund.

Á miðvikudag kom barnapían, öllum til mikillar ánægju.  Við hjónin gátum skroppið og keypt jólagjafir handa krökkunum og komum við á litlum pizzastað á heimleiðinni.   Ítalirnir þar voru ánægðir með Þýskaland, nóg vinna, nóg að gera – og hægt að selja ólívuolíuna úr garðinum heima, kaupum hana næst.  Sá skapmikli vildi að parnapían gisti, honum er meinilla við kveðjustundir!

Á fimmtudag voru smáræðileg þrif og bóndinn skrapp til tannlæknis – við ákváðum að gera Dr. Med. Hornef ekki að fjölskyldutannlækni, þó hann sé hér í næsta húsi – við hlægjum of mikið þegar við segjum nafnið hans!

Á föstudaginn var ákveðið að sleppa sundinu aftur, jólamarkaður í borginni sem arkað var á eftir fimleikana – margt fallegt að sjá og við keyptum kökukefli úr ólívuviði, það þarf eiginlega að geymast við hliðina á mortelinu úr ólívuviði – ef fram heldur sem horfir verður eldhúsið fullt af áhöldum úr þessum fallega viði.  Einn bolli fylgdi okkur líka heim.

Á laugardaginn var gleði í bænum, jólasveinarnir skrifuðu börnunum bréf og útskýrðu að þeir hefðu fengið Nikulás til að aðstoða sig fyrir þessi jólin, þar sem of erfitt væri að koma daglega.  Nikulás hefur því nóg að gera – ekki dró úr gleðinni þegar við tókum eftir því að hann hafði ekki bara komið með góðgæti í skóinn, heldur líka snjó.  Krakkarnir fóru því út að leika með amerísku vinkonunum, þær voru með tvær þotur, en hér var pappakössum skellt inn í plastpoka og á því renndu systur sér alsælar.

Eftir hádegið fórum við til Esslingen, vorum aðeins komin af stað í átt til bæjar með því nafni suður af Tübingen þegar frúin áttaði sig á því að það væri vitlaus Esslingen og snéri snarlega við.  Markaðurinn þar er bæði jóla- og miðaldamarkaður, margt skemmtilegt að sjá og við keyptum einn lítinn pýramída með spöðum sem snúast þegar kveikt er á kertum, afskaplega fallegt.  Við gengum upp að kastalanum – eða alla vega kastalaveggjum, sáum nú engan kastala þar uppi á hæðinni, gangan upp var stíf en útsýnið algjörlega þess virði þegar upp var komið.  Einn bolli fylgdi okkur heim.

Í dag drifum við okkur í sund með íslensk/þýsk/amerísku fjölskyldunni fyrir hádegið og eftir hádegið kom gamli nágranninn með fjölskylduna.  Við fórum í bæinn sem var stappfullur af fólki, gengum aðeins um og borðuðum svo saman hér heima á eftir. Einn bolli fylgdi okkur heim.

Afskaplega yndæl helgi og vika að baki og spennandi vika framundan.  Sú sveimhuga sagði á laugardaginn (sem oftar) „þetta er besti dagurinn, mamma!“

Sú snögga er svo ánægð með jólasveinana að hún vill helst standa í daglegum bréfaskriftum við þá – verst hvað þeir eru lélegir í stafsetningu og skrift!