Aðventan í hámarki

Tíminn flýgur áfram svona rétt fyrir jólin.

Á mánudaginn kom sú snögga heim með laflausa tönn – rétt eina!  Hafði lent í smá samstuði í leikfimi og tönnin losnaði svona rosalega, stuttu eftir heimkomuna var búið að kippa henni úr, sjö tennur farnar síðan í sumar og þrjár komnar upp!

Þriðjudagurinn var hefðbundinn, frúin fór á kóræfingu um kvöldið.

Á miðvikudegi kom bekkjarsystir þeirrar sveimhuga í heimsókn, þýska stúlkan í bekknum – auk þeirrar amerísku og systur hennar.  Jólamuffins voru bökuð upp úr stærðfræðidæmi.  Um kvöldið voru sálmar sungnir í Stiftskirkjunni auk ritningarlestra og voru börnin prúð eins og lömb undir enska textanum.  Þá er kórstarfi frúarinnar lokið í bili.

Á fimmtudag kom kennari þeirrar sveimhuga í heimsókn (hún kennir þeirri snöggu reyndar stærðfræði) – hún hefur fallið fyrir íslenska lopanum, var búin að prjóna kjól á dótturina og kom hingað til að sjá mismunandi gerðir af lopa og uppskriftir.  Um kvöldið var hnoðað í laufabrauð og hálf uppskrift flött út.

Á föstudaginn var alþjóðlegt jólaboð á neðri hæðinni – gestir komu með eftirrétti en aðalréttur í boði hússins.  Hópur krakka nutu aðstoðar þeirrar amerísku við uppsetningu helgileiks, frúin og bóndinn sungu „Hátíð fer að höndum ein“ og krakkarnir okkar sungu fyrir Nikulás sem kom færandi hendi – hann kallaði hvert og eitt barn upp og spurði hvort þau vildu syngja og okkar börn gerðu það.  Að vísu gekk þeim illa að skilja Nikulás, hann var illa haldinn af Svissnesku!  Sá skapmikli var svo heillaður af jólasveininum að hann hreyfði bara varirnar nema hvað „Adam“ heyrðist öðru hverju frá honum (frúin og sú sveimhuga studdu hann) í „Adam átti syni sjö“.  Meira laufabrauð flatt út.

Á laugardaginn voru steiktar kleinur og soðiðbrauð – eftir stutta ferð á sjúkrahúsið með þann skapmikla.  Hann þurfti að komast að því hvort nammið frá jólasveininum passaði í nefið – sem það og gerði en komst ekki þaðan út.  Bóndinn fór með hann á barnaspítalann, en þegar þangað var komið lak það út sem ekki hafði leysts upp.  Það var farið út að renna í brekkunni (það snjóaði aftur á föstudagskvöldinu), krakkar fóru í brúðuleikhús með pabba sínum að sjá „Pétur og Brand“ og höfðu mikið gaman af.  Það kólnaði heldur þennan dag, frostið fór niður í 14 stig um miðjan daginn.   Annað deig af laufabrauði hnoðað og flatt út.

Á sunnudaginn fengum við svo góða gesti í heimsókn, fyrrverandi nágranninn kom með fjölskyldu og íslensk/þýsk/ameríska fjölskyldan kom til að skera út laufabrauð.  Það gekk svo ljómandi vel að þau síðarnefndu hafa beðið um að fá að taka þátt í að fletja á næsta ári svo þetta geti orðið árlegur siður hjá þeim.  Krakkar og flestir fullorðnir fóru út að renna á meðan brauðið var steikt, kleinur og soðiðbrauð runnu ljúflega niður ásamt með afgöngum og hakksúpu.  Seinni partinn fór að hlýna og það snjóaði meira, alveg fram á kvöld en þá var frostið komið upp í tvær gráður.

Frábær dagur með yndislegu fólki og nú mega jólin koma!