Gleðileg jól

Á mánudaginn var fóru systur í skólann og drengurinn í leikskóla – sund hjá þeirri sveimhuga seinni partinn og dund inni við eftir það.

Á þriðjudaginn var síðasti skóladagurinn fyrir jólin, þær voru búnar snemma svo að eftir hádegið voru fleiri piparkökur málaðar, spilað og lífsins notið.

Á Þorláksmessu voru litlu jólin í leikskólanum hjá þeim skapmikla, hann kom heim með jólagjöf og allt!  Hér heima gerðu systur snjókarl úti á palli, bóndinn fór í loka útréttingar fyrir hátíðarnar og tréð var tekið inn seinni partinn.  Um kvöldið var fiskiveisla (aldrei verið borðaður jafn dýr fiskur á bænum!) og við vorum svo heppin að fá gesti í kvöldmatinn!  Ljúffengur steinbítur og kjúlli fyrir krakkana, eftir matinn var tréð skreytt og samkvæmt venju var það bóndinn sem setti stjörnuna – vanalegast þó vegna þess að hann er sá eini sem nær!

Aðfangadagur var ljúfur, sofið svolítið frameftir og sjónvarpsgláp – eftir hádegisverðinn fóru krakkar í bað og í rúmið í dálitla stund, svona til að eiga orku fram eftir kvöldi.  Eftir hvíldina klæddu allir sig í sitt besta skart og við skunduðum í lúthersku kirkju hverfisins í fjölskyldumessu klukkan fjögur, þar var helgileikur og hátíðleg stund, þó vissulega væri söknuður af því að heyra ekki „Heims um ból“.  Eftir messu var gæsabringan steikt og kartöflur brúnaðar, maturinn borðaður undir söng  Mahaliu Jackson.  Eftir uppvask voru kortin lesin og þá var loksins komið að aðalstuðinu (bóndinn hélt að frúin væri að grínast þegar hún sagði þeirri sveimhuga – og hinum krökkunum – hvert kvöldskipulagið væri, en varð svo mest hissa á því hvað krakkarnir voru sáttir við þann háttinn!).  Pakkarnir voru rifnir upp af miklum móð og allir himinlifandi, hægt að skríða í bólið með nýja bók á öllum vígstöðvum.

Á Jóladag var lufsast fram eftir degi, svínið snætt um hádegið meðan allir voru enn í náttfötum, en seinnipartinn fórum við til Reutlingen á skauta með Ameríkönunum.

Á Annan fórum við í jólaboð til fyrrverandi nágrannans, gengum um bæinn þeirra, Holtzgerlingen og skoðuðum skreyttar uglur sem er helsta kennileiti bæjarins – sem er ekki ferðamannabær og því ekki hægt að kaupa uglur í neinni búð þar!

Í dag, þriðja í jólum var fjölskyldugjöfin tengd – Wii – og farið í keilu, meira að segja sá skapmikli ræður við það.  Hér er líka púslað af miklum móð (himinn yfir New York fyrri hluta 2001 verður þolinmæðisvinna!).  Við gengum einn hring upp að ökrum, lásum og dúlluðumst.

Bóndinn verður í fríi í næstu viku (og lengur) svo áfram verður slakað á og lífsins notið.

Vonandi hafið þið það öll sem best, hafið átt notaleg jól hingað til og verði framhald þar á – Gleðileg jól til ykkar allra og gangið hægt um gleðinnar dyr um áramótin. 🙂