og takk fyrir það gamla, vinir nær og fjær.
Heldur hefur árið farið rólega af stað – eins og 2009 endaði, í eindæma rólegheitum og afslöppun!
Síðasta vika var með eindæmum róleg, hér var horft á sjónvarp, spilað Wii og margt fleira, lesið og púslað. Þann 30. voru steiktar kleinur og skroppið á bíla- og leikfangasafn, þar var sér sýning á lestum sem vakti mikla hrifningu.
Á gamlársdag fórum við í veislu til vinnufélaga bóndans, þar voru amerísku vinir okkar líka sem og þýsk vinahjón húsbænda og ein frú búsett á Íslandi sem vildi endilega fá að slást í hópinn til að hitta Íslendingana. Þarna komu allir með eitthvað til að maula, flugeldum var skotið upp og horft var á „Dinner for One“ sem er frá 1963, sýnd ótalsett rétt fyrir miðnætti og allir hlæja að því sama ár eftir ár.
Á nýársdag horfðum við á Sound of Music með Ameríkönunum og er stefnan sú að komast til Saltzborgar einhvern tíma á meðan á dvölinni hér stendur.
Á annan komu góðir gestir, íslensk/þýsk fjölskylda búsett stutt frá Munchen, með þeim var farið í brekkuna við engið og þotur, sleðar og plastpokar prófuð í snjónum. Þau gistu hjá okkur og í morgun sýndum við þeim svo borgina.
Vikan framundan verður annasöm, Sirkus og ferð til Kölnar bera þar hæst – eftir það hefjast skólar á ný og hversdagurinn fer að rúlla.
Þetta er merkilegt ár sem er hafið – við verðum hér ytra allt þetta ár, fyrir utan styttri ferðir hingað og þangað, vonandi ein þeirra til Íslands með vorinu.
Sá skapmikli segir: „Flugvéldar“, sú snögga: „Flugeldingar“ en sú sveimhuga hefur alltaf sagt: „Flugeldar“. Foreldrunum finnast þessi mismæli of krúttleg til að leiðrétta þau – reyndar kom sá skapmikli með eitt enn betra í dag þegar Memo minnisspil var í gangi, hann fletti við „lakkrís“ sem aðrir á heimilinu kalla „naggrís“!