Þá er vikan flogin hjá, lítið var gert umfram það allra hefðbundna.
Á miðvikudaginn kom þó skólasystir þeirrar sveimhuga í heimsókn, frúin greip tækifærið og var með stutta Íslandskynningu á þýsku fyrir móðurina – einnig smá lopaauglýsingu!
Á laugardaginn fórum við í barnaafmæli til fyrrverandi nágrannans og skemmtum okkur konunglega í góðum félagsskap, haldið var áfram að fagna afmælinu á sunnudeginum þegar við skelltum okkur á skauta með afmælisbarninu (tilvonandi) og tvíburunum og höfðu þar allir töluvert mikið gaman af!
Annars er talið niður til fimmtudags, þá koma amma og afi – og ekki síður mikilvægt eða spennandi er augnlæknaskoðum systranna. Sú sveimhuga bíður spennt eftir því að fá gleraugu og myndi sennilega helst vilja ganga út frá augnlækninum með svoleiðis grip á nefinu.
Sú snögga verður skoðuð í leiðinni. Hún kom annars móður sinni á óvart um daginn með því að geta reiknað út 5×5 og 3×5, á nokkurra vandræða, í aftursætinu og svarað þar með rétt í spurningakeppni þeirrar sveimhuga!
Annars verður næsta vika umvafin meira „Fasching“, karnival dýranna á leikskólanum á miðvikudaginn og á föstudaginn kemur verður grímubúningadagur í skólanum. Svaka fjör framundan!
Sá skapmikli tók forskot á sæluna á föstudaginn var og fór í leikskólann málaður sem sjóræningi!
Smá viðbót – bóndinn er á leiðinni á slysó með þann skapmikla, hann var að dunda sér við að tropa poppmaís í eyrað á sér!
Enn viðbót – feðgar komnir heim, baunalausir, læknirinn kallaði til alla nema til að fylgjast með sér ná bauninni út með bréfaklemmu! Sá skapmikli frekar stoltur af afrekinu (hjá lækninum allt svo), en vonandi treður hann ekki fleiru inn í eyra eða nös á næstunni. 🙂