Gleðilega páska kæru lesendur nær og fjær!
Þá er það vikuyfirlitið.
Á mánudag fram á miðvikudag var skóli hjá krökkunum eins og vanalega (sá skapmikli fékk frí á fimmtudag, en skírdagur var síðasti opnunardagur fyrir páska). Allt var það nú hefðbundið fyrir utan óvanalega lítið heimanám þá vikuna.
Á þriðjudegi áttuðum við hjónakornin okkur á því að við ættum stórafmæli – heil fimmtán ár síðan við urðum par! Af því tilefni fórum við út að borða um kvöldið.
Á miðvikudegi fór frúin með krakkana heim til þýskrar vinkonu þar sem þær amerísku voru líka og við skreyttum öll harðsoðin egg – auk örfárra blásinna líka. Það var mikill hamagangur við skreytingar og málun og voru hendur töluvert litríkari á heimleiðinni en á leiðinni þangað.
Á skírdag skruppu frúin, krakkar, þær amerísku og ein frá Venesúela til Waldenbuch bæjar, þar er Ritter Sport súkkulaðiverksmiðja starfrækt auk nýlistasafns á vegum eigendanna. Þar var margt merkilegt að sjá og töluvert magn af súkkulaði kom með okkur heim. Seinna um daginn fórum við til búlgaskra vina og skreyttum egg með þeim auk þeirra amerísku.
Á föstudaginn langa fór fjölskyldan öll í hjólreiðatúr yfir á leikvöllinn í Waldhausen Ost og þau amerísku komu í yndælan afrískan kvöldverð. Maturinn var einstaklega góður og ekki skemmdi að borða hann í þessum fína félagsskap og fræðast töluvert um amerískt samfélag í leiðinni.
Á laugardaginn var farið í sund fyrir hádegið þar sem ekkert hafði verið synt á föstudeginum langa. Eftir matinn ókum við suður í Albana Swebísku og sóttum Grafeneck heim, þar hófst helförin í seinni heimsstyrjöldinni, með opnun búða, gasklefa og líkbrennsluofna þann 18. janúar 1940. Á þessum stað voru 10.654 einstaklingar myrtir fram í desember það ár – þau höfðu öll verið vistmenn hinna ýmsu stofnanna í suður Þýskalandi.
Fólkið var flutt til Grafeneck með svokölluðum gráu rútum, sjá hér. Þarna var hæli fyrir stríð, sem var enduropnað eftir stríð, fyrir fólk með þroskahömlun, staðurinn svipar til Sólheima í dag með lífrænni ræktun og mörgum litlum íbúðarhúsum. Vægast sagt var það mjög sérstakt að koma á þennan stað.
Næsta stopp var Marbuch hestamiðstöð þar sem við klöppuðum hestum og röltum á milli hesthúsa og fórum svo yfir til Lichtenstein kastala. Það er einstaklega lítill og skemmtilegur kastali, algjörlega óvinnandi vígi. Eigendur hans eru ung hjón en við fórum ekki með leiðsögn inn í sjálfan kastalann, gengum bara um kastalagarðinn.
Í dag eru svo páskar, morguninn byrjaði á því að krakkarnir fóru út eftir morgunmat og leituðu að eggjum hér fyrir utan, þar fundust líka 3 páskahérar. Þegar inn var komið þurfti að leita að eggjunum sem amma og afi höfðu sent. Hér var því dágóður haugur af súkkulaði – það bættist reyndar töluvert þar við, þar sem hér fyrir utan leyndust 3 hérar til viðbótar og niðri við póstkassa birtust enn 3, auk annars súkkulaðis! Undir kvöldið dúkkaði svo upp lítil askja fyrir foreldrana á dyraþrepinu. Hér eru greinilega páskahérar út um allt! Krakkarnir þurftu að brenna örlítilli orku eftir hádegið svo þau fóru á hjólum upp að bóndabæ og gengum við hjónin með þeim – sá skapmikli fékk að fara á nýja hjólinu sínu og það gekk prýðilega.
Á þriðjudaginn kemur förum við til Parísar og verður næsta færsla um þá ferð – svo koma gestir í vikunni þar á eftir, fullt að gera framundan!