Þetta var skrítin vika. Á mánudaginn fór frúin í útréttingar og sótti þann skapmikla á bíl, á heimleiðinni hringdi fyrrverandi nágranninn og þurfti að koma öðrum tvíburanum á sjúkrahús. Hún var í vandræðum með yngsta soninn því ekki náðist í bónda hennar. Frúin skaust því í næsta bæ til að passa og var þar fram á kvöld. Hér heima bjargaði ameríska vinkonan og bóndinn málunum fram yfir háttatíma.
Á þriðjudegi vorum við hér heima, leikfimi hjá þeirri sveimhuga en svalt úti og dundað og leikið inni. Í skólanum hjá stelpunum byrjaði þemavinna sem stendur fram að fríi, unnið er út frá HM í fótbolta á eins fjölbreyttan máta og hægt er, matur, menning og fleira hjá þátttakenda þjóðunum.
Á miðvikudegi var sá stutti sóttur aftur og frúin fór með fjögur börn yfir í næsta bæ frameftir. Það kvöld bárust okkur óskaplega sorglegar og sárar fréttir af Íslandi.
Á fimmtudegi – uppstigningardegi (Kristi himmelsfart) er frídagur hér, sá stutti var sóttur fyrir allar aldir og dvaldi hér lungann úr deginum. Bróðirinn var allur að braggast á sjúkrahúsinu og farið að sjá fyrir endann á þeirri dvöl. Við fórum í snarl til vinnufélaga bóndans þar sem mikið var skrafað og snætt.
Á föstudegi var sá stutti sóttur í síðasta sinn, fyrir allar aldir. Frídagur í skólanum og sá skapmikli fékk frí í leikskólanum. Eftir labb um hverfið, skógargöngu og leikvallarheimsókn fórum við heim með þann stutta þar sem sjúklingurinn kom alheill heim. Mikið gott hvað það gekk vel.
Á laugardeginum fórum við á flóamarkað og í verslanir, dundað inni í svölu vorveðrinu.
Á sunnudegi skruppum við með fyrrverandi nágrannanum og tveimur sonum upp í Albana. Ætluðum að heimsækja ævintýralegan leikvöll þar sem hægt væri að klappa dýrum. Eitthvað lítið var um merkingar á þessu svæði og ókum við upp að veitingastað þar sem sitt lítið af dýrum voru – auk óskaplega lítið ævintýralegs leikvallar! Við stoppuðum þar dágóða stund, þarna hafði átt að vera grillaðstaða líka sem hvergi fannst.
Eftir að hafa spurst aðeins fyrir fórum við á annan stað til að komast í grill, þegar við gengum niður að því svæði missti sú snögga andlitið – því þar var ævintýralegi leikvöllurinn í allri sinni dýrð! Auk einhverra dýra og frábærrar grillaðstöðu. Dvöldum við þar fram eftir degi og gúffuðum í okkur nestið, krakkarnir hömuðust og léku sér.
Nú styttist aldeilis í heimferð – á miðvikudaginn þarf Eyjafjallajökull vinsamlegast að haga sér almennilega!