Á mánudaginn kom fyrrverandi nágranninn í heimsókn eftir skóla og leikskóla og miklar vangaveltur voru hvort byrja ætti að pakka niður fyrir Íslandsferðina eða ekki.
Á þriðjudegi var pakkað – frúin skaust til Holzgerlingen og sótti sér stígvél sem hún hafði pantað frá Amríkunni sem verðlaun fyrir kláruðu áskorunina, þau eru flott!
Á miðvikudegi rann stóri dagurinn upp – ekið var af stað og vélin fór í loftið nokkrum tímum síðar. 🙂 Mikil gleði þegar gengið var út í andyri Leifstöðvar þar sem amma og afi tóku á móti fjölskyldunni. Allir borðuðu svo saman hjá stóra bróður og fjölskyldu.
Á fimmtudegi fór bóndinn í flug með krakkana norður til Akureyrar og ekki var minni gleðin þar við að hitta ömmu og afa. Frúin varð eftir í bænum, reddaði nokkrum útréttingum og hitti fólk. Aðfararnótt fimmtudags hafði sá skapmikli sofið óvenju illa og fyrir norðan greindi Dr. Valli hann með eyrnabólgu, skapið hafði líka verið óvanalega slæmt undanfarna daga!
Á föstudegi var stuð fyrir norðan, en erfiður dagur syðra. Kistulagning og jarðarför litla Aðalsteins. Um kvöldið flaug frúin norður í faðm fjölskyldu og vina.
Á laugardegi kom bílferð í Mývatnssveitina óvænt upp í fangið á okkur, stóra systir bóndans, hennar maður, tengdapabbi og við öll tróðumst inn í stóra jeppann og við skoðuðum fugla – bæði á vatninu og uppstoppaða. Einnig sáum við stálfugla (flugvélar), Dimmuborgir og Þorgeirskirkju. Um kvöldið fengum við lambakjöt í góðum félagsskap – mmmm.
Á sunnudegi heimsóttum við vini og fórum í fermingarveislu þar sem etið var á sig gat. EKki bloggað það kvöldið vegna skorts á netsambandi.
Á mánudegi var heimsókna maraþon ásamt ör-reiðtúrum og myndatökum. Góð dvöl á Norðurlandi var á enda og flogið aftur suður í veðurblíðuna – fiskur snæddur úti á palli í faðmi stórfjölskyldunnar.