Það styttist

… í gestakomu, stóri bróðir frúarinnar ásamt fjölskyldu er væntanlegur síðar í vikunni, vonandi gengur það eins og í sögu.  Fylgst hefur verið með fótbolta með áður óþekktum áhuga – skrítið að vera í landi sem tekur þátt í svona stórmóti og allt er á öðrum endanum.  Andinn var frekar léttur hjá öllum fram eftir vikunni, dapraðist þó aðeins þegar tapleikurinn var búinn á föstudeginum.  Þá er bara að taka það með trukki á miðvikudaginn næsta!

Á mánudaginn fóru yngri börnin í leikfimina sína og fannst það gott – fínt að fá smá útrás í hlaupaleikjum.

Á þriðjudegi kom vinkona í heimsókn með tvær dætur, áttum við gott spjall yfir pönnukökum um landsins gagn og nauðsynjar og aðeins var kveðjugjöf til amerísku fjölsyldunnar undirbúin en þau fara í næsta mánuði.

Á miðvikudegi voru pönnsur steiktar í stórum stíl, tæplega 100 stykki þar sem allir krakkarnir ætluðu að taka með sér á sautjándanum.

Sautjándinn kom, allir í skóla og leikskóla með hauga af pönnsum, frúin bakaði múffur og steikti fleiri pönnsur (aldrei verið steiktar jafn margar á jafn stuttum tíma!).  Íslendingar komu í kaffi um eftirmiðdaginn, spjall og íslensk tónlist hljómaði.

Á föstudegi kom bóndinn snemma heim til að horfa á leikinn, systur fóru í fimleika en lítið heyrðist af gleðilátum þegar leikurinn var búinn og tap staðreynd!

Á laugardagsmorgni skelltum við kvenpeningurinn okkur í kvennahlaup með Ameríkönunum, fórum í bæinn eftir að hafa séð brúðarkjól Viktoríu Svíaprinsessu (og Jóa staðarhaldara á Bessastöðum á leið inn í kirkjuna!).  Sú snögga hafði virkilega gaman af ameríska dansinum í miðbænum, rósahátíð var heimsótt og um kvöldið kom bóndinn frúnni aldeilis í opna skjöldu þegar hann dró hana í rómantíska skógargöngu á veitingastað í tilefni af brúðkaupsafmælinu!  Hjónin borðuðu ljúffengan mat á Rosenau á meðan barnapían var heima með gormana – sem óska sérstaklega eftir því að fá hana aftur til að passa.

Á sunnudegi drifum við okkur frekar snemma af stað til Horb am Neckar, þar var svakaleg Riddarahátíð í gangi, miðbærinn girtur af og sölutjöld út um allt, niðri við ána voru burtreiðar og sáum við ríflega hálfa sýningu.  Heim þurfti að komast fljótlega eftir hádegið þar sem systur voru boðnar í afmæli til kínverskrar bekkjarsystur þeirrar sveimhuga.

Næstu dagar ættu að líða hratt – í bið eftir gestunum, vonandi verður veðrið orðið betra þegar þau koma, en frekar blautt og svalt hefur verið undanfarið.

Minning:

Í Horb, við ráðhúsið sagði sú sveimhuga við frúna, „svakalega er þetta stór fluga hjá blóminu.“  Þegar frúin fór að skoða sá hún ekki betur en þarna væri á ferð hinn ameríski býflugnakólibrífugl!  Hóað var í bóndann, en hann sá dýrið ekki nema rétt í svip og var efins um greiningu frúarinnar, en þegar hann getur bent henni á flugu sem er 4-5 cm löng, með stél og 1,5-2 cm langan íbjúgan gogg og vængi út frá miðjum búknum og dýrið getur flogið bæði aftur á bak og áfram og sýgur blómavökva – þá var þetta kvenkyns býflugnakólibrí sem hefur sloppið úr búri!