Tómleiki

Jæja, þá eru gestirnir flognir í þetta skiptið – það er nú alltaf tómlegt þegar fækkar en sem betur fer styttist jafnframt í að við hittum þau aftur og að næstu gestir komi.

Á mánudaginn varð sú snögga 7 ára.  Eins og fyrr var búið að bíða lengi eftir að þessi merkisdagur rynni upp.  Bróðirinn, mágkonan og bróðurdóttirin skruppu í verslunarleiðangur en bróðursonurinn var heima og tók þátt í bekkjarafmæli þeirrar snöggu, sex bekkjarsystkin komu auk þriggja úr bekk þeirrar sveimhuga  – súkkulaðigosbrunnurinn sló algjörlega í gegn!

Á þriðjudegi röltum við niður í borgina, gengum skógarstíginn og fórum í kastalann, gengum yfir eyjuna og fengum okkur ís áður en slúttað var í gamla grasagarðinum.  Við tókum svo strætó á Bella Roma þar sem allir fengu ljúffengan mat.

Á miðvikudegi fóru bróðirinn og fjölskylda í Legoland, sá skapmikli fór heim til vinar síns að leika og systur tóku til.  Bóndinn og bróðirinn fóru upp í tjald í Waldhausen Ost um kvöldið og fylgdust með leiknum þar, en gleðin við heimkomuna var minni en síðast.

Á fimmtudegi var skroppið yfir í skóginn við Bebenhausen og villisvínunum gefið afgangs brauð sem safnast hafði upp.  Þaðan fórum við í Ritter Sport og keyptum svolítið súkkulaði.  Síðustu helgi höfðu uppgötvast óvelkomnir gestir – geitungar eða vespur, hér við stofugluggan.  Það var eitrað fyrir þeim og frúin fjarlægði svo leifarnar sem voru miklar!  Einhver tungumálatregða var í gangi varðandi heiti flugnanna, við töldum þetta vera geitunga en á pappírunum stóð „Wespen“ – sem eru einmitt geitungar! Merkilegt.

Á föstudegi var heitt og allir fóru í Freibad og um kvöldið skruppu frúin, bróðirinn, mágkonan og bróðurdóttirin til Metzingen í Outlet City þar sem gera átti stórinnkaup – en lítið fór fyrir þeim þar sem MJÖG margir aðrir höfðu fengi sömu frábæru hugmynd.

Á laugardegi var heitt, við fórum samt flestöll (nema mágkonan sem ætlaði að slaka á heima – en reyndist hafa þrifið og þvegið þvott í staðinn) til Hechingen í berfótagönguna, ganga var misjafnlega þægileg eins og alltaf – fyrir utan að í þetta skiptið voru sumir hlutar hennar óþarflega heitir.

Við ókum líka í áttina að Hohenzollern kastala svo bróðirinn gæti tekið mynd af honum.  Eftir hádegismatinn fóru frúin, bóndinn og krakkaskarinn á listasafnið svo ferðalangarnir gætu hvílt sig fyrir næturaksturinn.  Einnig keyptum við ís og snakk fyrir leikinn stóra í sjónvarpinu sem endaði ljómandi vel.

Seint um kvöldið fóru gestirnir svo af stað til Düsseldorf og heim á sunnudagsmorgni.  Frúin og dæturnar skruppu í ævintýragarðinn við Lichtenstein kastala á sunnudeginum og skemmtu sér konunglega þar á meðan bóndinn og sá skapmikli léku sér heimavið.

Nú verður farið að telja niður í næstu gesti, litli bróðir og hans frú koma eftir tæpar tvær vikur!