Hiti og meiri hiti

Vikan leið að miklu leiti hjá í hitamóki – einn daginn (man ekki einu sinni hvaða dag það var!) fór upp í 37°C niðri í bæ, var líklegast 35 stig hér uppfrá!

Á mánudaginn voru allir að kafna, sú snögga var reyndar full af kvefi og það slöpp að hún fór ekki í leikfimi, það gerði sá skapmikli hins vegar.  Eftir tímann hans fór fjölskyldan í Intersport og fjárfesti í síðasta tilboðstjaldinu og gerði feikna góð kaup í því.

Á þriðjudegi var enn mjög heitt, sú snögga var heima vegna slappleika en sú sveimhuga fór í leikfimina eftir skóla og var klukkutíma lengur en vanalega þar sem hún gerðist aðstoðardama kennarans þegar litlu krakkarnir komu.  Hafði hún mikið gaman af því.  Amman í Reykjavík átti afmæli.

Á miðvikudegi skrapp sá skapmikli enn einu sinni í heimsókn til vinar síns, léku þeir sér að mestu í sundlauginni og fannst systrunum mikið til koma þegar þær komu með að sækja hann – öfunda litla bróður sinn töluvert!  Sú sveimhuga fór til augnlæknir, þriðja heimsóknin á þremur ársfjórðungum – var boðið að koma aftur í desember – það er nefnilega hægt að rukka tryggingarfélögin fyrir eina heimsókn á hverjum ársfjórðungi!

Á fimmtudegi fór fjölskyldan til tannlæknis og reyndist það ánægjuleg heimsókn fyrir alla.

Á föstudegi átti loksins að senda systur í fimleika – þeir féllu hins vegar niður vegna einhverrar uppákomu í Silcherschule þar sem kennslan fer fram.  Léku krakkar sér því svolítið í gamla Grasagarðinum áður en við skruppum í sund.  Við fengum svo að poppa í örbylgjuofninum hjá Ameríkönunum um kvöldið.

Á laugardegi átti afinn á Akureyri stórafmæli.  Við fórum hins vegar í kveðjurveislu fyrir Ameríkanana hjá þýskri vinkonu, þar var gaman og ýmislegt góðgæti á borðum.  Reyndar ringdi af og til allan daginn – sem var gott því loftið hreinsaðist, en ekki hægt að hafa veisluna úti eins og til hafði staðið.

Á sunnudegi var sumarhátíð hjá þeirri sveimhuga, bekkurinn hittist í Schönbuch skóginum, við eldstæði.  Þar grilluðu allir fyrir sig og mættu með kræsingar á hlaðborð.  Krakkarnir léku sér og fluttu leikþátt sem verið er að æfa fyrir næsta haust. Seinnipartinn kíktu svo amerísku stelpurnar í smá stund.

Aðeins hefur kólnað núna um helgina, ekki nema rétt ríflega 20 stig þessa dagana (24-26 stig) sem er ákaflega passlegt, spáin hljómar þannig upp á næstu daga sem er notalegt.

Næstu gestir koma í lok þessarar viku og svo styttist í sumarfrí í skólanum.