Og tíminn líður!
Á mánudegi voru litli bróðir og frú send í örlítinn verslunarleiðangur til Metzingen og Reutlingen á meðan krakkar stunduðu sinn skóla og íþróttir að vanda.
Á þriðjudegi skruppu skötuhjúin upp í Schwäbisku Albana að skoða vatnsuppsprettuna í Blaubeuren, kirkjuna í Zwiefalten og litla kastalann í Lichtenstein, á meðan gekk allt sinn vanagang hér. Eftir leikfimi gengum við bóndabæjarhringinn með mágkonunni.
Á miðvikudegi var skólaslitamessa í kaþólsku kirkjunni, þar sem sú sveimhuga tók þátt í helgisöngleiknum „Týndi sonurinn“ sem hafði verið æfður í AG undanfarna miðvikudaga. Það gekk ljómandi vel hjá þeim. Eftir messuna fóru hjónaleysin í kastalann í Hohenzollern og sýnisferð til Erpfingen án þess þó að stoppa á páskaeggjasafninu.
Eftir hádegið var verandarhátíð í leikskólanum hjá þeim skapmikla, kennararnir voru með leikþátt um upphaf skólagöngu í tilefni af því að 6 börn af deildinni eru að hætta. Pönnsurnar ruku út að vanda og er þörf á því að þýða uppskriftina yfir á þýsku svo hægt verði að dreifa henni!
Eftir hátíðina var kvöldverðurinn snæddur á Bella Roma, öllum til mikillar ánægju – loksins komið sumarfrí!
Á fimmtudegi var dúllast hér heimavið – skutlast í afmælisgjafaleiðangur og seinnipartinn fór sá skapmili í afmæli til vinar síns. Á meðan fóru hinir sem heima voru í búðarleiðangur þar sem margt var skoðað.
Á föstudegi var áætlunin sú að ganga niður í bæ upp úr hádegi og skoða borgina, við lögðum af stað niður skógarstíginn en lentum í þvílíkri rigningu að ekki var annað hægt en að snúa við – að sjálfsögðu stytti upp áður en við komum heim, en sá skapmikli var býsna sáttur við að rassinn var ekki blautur þegar hann var kominn úr öllu – svo mikið blotnuðum við.
Litli bróðir og frú fóru í smá leiðangur á meðan skúffukakan bakaðist, eftir kaffið skruppum við niður á leikvöll í Wanne.
Á laugardegi stóð stór göngutúr fyrir dyrum – gengið var niður til Bebenhausen, þaðan yfir til villisvínanna fyrir norðan bæinn. Frá þeim gengum við norð-vestan við bæinn að grillsvæði við Goldersbach ána og þar stóð til að grilla. Sökum mikilla rigninga undanfarna daga gekk það þó ekki, svo rúnstykki með tómatsósu varð hádegismaturinn! Krakkarnir nutu þess að leika í ískaldri ánni og hápunkturinn var þegar við áttuðum okkur á því að tvær litlar leðurblökur voru upp við rjáfur í skýlinu við eldstæðið. Eftir heimkomuna um taldist okkur til að líklegast hefðum við gengið um 10 kílómetra – krakkarnir voru að vísu með hlaupahjól.
Á sunnudegi komumst við niður í bæ, fórum með strætó í þetta skiptið. Það var sunnudagsopnun verslana og töluvert um manninn í bænum. Við byrjuðum á því að borða hádegismat á ísveitingastað – frekar skemmtilegt, gengum upp að kirkjunni, kastalanum, í gegnum eyjuna og þvældumst aðeins um bæinn og enduðum á leikvellinum eins og vanalega.
Á mánudegi tók unga fólkið sér bílaleigubíl og skruppu í Rínardalsferð, systur fara í stúlknaafmæli seinnipartinn en annars er bara leikið og þess notið að vera í fríi.
Aðeins hefur hlýnað og stytt upp, sú sveimhuga les Andrésar Andar Syrpu, sú snögga æfir sig daglega á blokkflautu og sá skapmikli hefur gaman af því að vera í fótbolta með frænda sínum.
Næstu daga á að reyna að nýta með gestunum eins og hægt verður – og senda þau hingað og þangað í ferðir.