Á þriðjudegi fórum við í smá ferðalag – nema bóndinn sem hafði lagst veikur þegar hann kom heim úr vinnu á mánudegi.
Ekið var niður að Bodensee og út á Mainau eyju sem er blómaeyja í eigu Bernadotte fjölskyldunnar – eða eignarhaldsfélagi þeirra. Þar eru blóm og tré út um allt, ofsalega fallegar skreytingar og virkilega skemmtilegir garðar að ganga um. Barokkhöll þeirra og kirkja eru efst á eyjunni og er kirkjan opin almenningi. Stutt frá innganginum eru nokkur dýr og risastór og skemmtilegur leikvöllur – krakkarnir voru lítið klædd í bílnum þaðan, þar sem þau blotnuðu töluvert við leik þar.
Frá Mainau ókum við niður í Konstanz og keyrðum aðeins um borgina, tókum svo ferjuna yfir til Meersburg og fórum austur í Affenberg þar sem við gáfum öpum poppkorn, skoðuðum storka og hjartardýr – eitt þeirra kom alveg upp að þeirri snöggu og þefaði af henni, og það var ekki girðing á milli!
Heim var svo haldið eftir góðan dag.
Á miðvikudegi skruppu gestirnir norður til Ludwigsburg og skoðuðu íburðinn þar, en hér heima var dúllast og leikið sér fyrripartinn en seinnipartinn skrapp frúin með krakkana til fyrrverandi nágrannans svo bóndinn gæti slakað á í friði. Bíl gestanna var svo skilað með kvöldinu.
Á fimmtudegi erinduðu gestirnir í bænum, hér var slakað á. Sá skapmikli fór til vinar síns eftir hádegið í heimsókn. Frúin skaust með gestina í Ritter Sport til að birgja þau upp af súkkulaði.
Á föstudegi voru gestirnir dregnir í berfótagöngu -frúin skrapp með þeim í það, eftir hádegið fór bóndinn (þá orðinn hressari) með krakkana í heimsókn til vina og frúin keyrði gestina á flugvöllinn í Frankfurt og heim aftur.
Um helgina hafði verið uppi hugmynd um að fara í útilegu, en á laugardagsmorgni var sá skapmikli boðinn til vinar síns þar sem þeir sjást svo ekki í rúmar 3 vikur!
Eftir hádegið fór fjölskyldan í ferð upp í Albana að skoða helli, Nebelhöhle heitir hann. Það var ákaflega fallegur dropasteinshellir.
Á sunnudegi var aftur keyrt í Albana, í þetta skiptið í lítinn skemmtigarð sem heitir Traumland og er rétt við Bärenhöhle helli. Hafði það verið lengi á dagskrá að skoða þennan garð. Allir skemmtu sér vel og komu nokkuð þurrir heim aftur – þrátt fyrir smá þrumuveður.
Þá er hægt að strika yfir tvennt sem var á listanum yfir það sem átti eftir að gera – nóg er víst eftir enn!
Enn er tilhlökkun yfir gestakomum – alla vega hjá þeim sem vita að von er á gestum á föstudaginn, en ekki hefur það enn verið opinberað yngri meðlimum. 🙂