Gestakomur

Vikan hefur liðið hjá í inniveru og almennu hangsi – að mestu.

Á mánudagsmorgni byrjuðu systurnar á sumarnámskeiði á vegum Menntunarmiðstöðvar fjölskyldna hér í borg, þar bjuggu þær til strengjabrúður úr rusli, léku sér úti, sungu og skemmtu sér konunglega.  Á meðan dundaði drengurinn sér heima með frúnni.

Á þriðjudegi var kvennakaffi að vanda í kjallaranum, fámennt en góðmennt í sumarfríinu.

Á miðvikudegi eyddu sá skapmikli og frúin fyrripartinum niðri í bær með búlgörskum vinum á meðan stúlkurnar voru á námskeiði – drengurinn var reyndar svolítið hissa á því að þau mæðginin væru endalaust í sumarfríi, allan daginn alltaf hreint!

Á fimmtudegi voru bakaðar múffur þegar stúlkur komu heim, hér var perlað og dundað eins og hina dagana.

Á föstudegi lauk námskeiðinu með leiksýningu þar sem brúðurnar voru sýndar – var það mjög skemmtilegt.  Seinnipartinn fór fjölskyldan öll saman í sund því sú snögga vill endilega verða synd áður en til Íslands verður flutt.

Eftir sundið fórum við í gamla sláturhúsgarðinn í bænum, fengum grillaðar pylsur og franskar í kvöldmat og horfðum svo á bíó undir berum himni!  Myndin var „Skrekk að eilífu“ og það merkilega var að meira segja sá skapmikli vakti til enda.  Var þetta ákaflega góð skemmtun.

Við komum heim seint og um síðir, það var farið að halla í miðnætti þegar allir voru komnir í ból – sem voru á leið í rúmið á annað borð, en frúin skaust til Stuttgart og sótti foreldra sína klukkan að verða eitt.

Á laugardagsmorgni var mikil gleði að hitta ömmu og afa, bílaleigubíll var sóttur fyrir þau og þau svo dregin af stað í skoðunarferðir, að Lichtenstein kastala, páskaeggjasafnið reyndist lokað en við enduðum í berfótagöngunni í Hechingen.

Á sunnudegi komumst við af stað fyrir hádegið, byrjuðum á Hohenzollern kastala og fórum þaðan á Rómverjahátíð á safni við Hechingen þar sem Rómarriddarar í fullum herklæðum börðust við lítt hervædda Þjóðverja – þetta var ROSALEGT! Í það minnsta að mati þess skapmikla.  Rómverjarnir voru ítalskir að sjálfsögðu – þetta var alvöru.

Síðasta stoppið var páskaeggjasafnið sem er bara opið á sunnudögum.

Áfram verður haldið með skoðunarferðir á mánudegi og borgin heimsótt eftir það.

Gott er að hafa góða gesti.