Góðir dagar

Á mánudegi var veðrið ekki til að hrópa húrra yfir, skýjað og svalt.  Við fórum samt af stað fyrir hádegið, byrjuðum í Metzingen þar sem keyptir voru skór, þaðan ókum við svo í gegnum Bad Urach til Ulm.  Þar var þungskýjað og rok, við fórum samt ótrauð upp í hæsta kirkjuturn í Evrópu, nema amman sem beið inni í kirkjunni.

Upp þrepin 768 fóru allir, þrátt fyrir rok í efsta stiganum og erfiðleika við að mæta fólki á niðurleið – þegar við sáum einfætta manninn á hækjunum þarna uppi var ákveðið að ekkert væri þess virði að kvarta yfir á þessum stað!  Á leiðinni niður rann sá skapmikli tvö þrep, svo frúin bar hann niður restina, eitthvað á sjötta hundrað þrep.

Eftir að hafa skoðað kirkjuna að innan fórum við út að skoða borgina, þá fór að rigna.  Við gengum samt svolítið um, ætluðum að skoða flotta bókasafnið að innan, en það er lokað á mánudögum.  Við gengum niður að Dóná og aðeins inn í gamalt fallegt hverfi sem er kallað fischerstechen.  Síðan fengum við okkur heitt að drekka og ókum frá Ulm yfir til Zwiefalten til að skoða flottu kirkjuna þar.

Bílaleigubílnum var skilað fyrir kvöldmat.

Á þriðjudegi var útréttað svolítið, veðrið var ekkert sérstakt, en amman og afinn gengu þó með krökkunum upp að bóndabæ og afinn fór líka á Wanne leikvöllinn með þeim á meðan frúin og amman útréttuðu.  Um kvöldið var farið út að borða á Bella Roma.

Á miðvikudegi rann upp afmælisdagur, sá skapmikli var loksins fjögurra ára!  Hann var að vísu frekar á því að hann væri 5 eða jafnvel 6, en vissi þó hversu mörgum puttum átti að halda uppi og gat talið þá til að komast að rétta svarinu.  Krakkarnir skreytu köku og þrír gestir komu, ein amerísk og tvö búlgörsk.

Á fimmtudegi lagaðist veðrið aðeins, fyrripartinn fór frúin með börnum og afanum að sigla á Dóná á kanóum, með bekkjarsystur þeirrar sveimhuga og hennar fjölskyldu.  Það var ótrúlegt að upplifa það að sjá ekki aðra en okkur! Fjölskyldan lenti í myndatöku fyrir útivistarblað sem gefið verður út næsta vor.

Eftir hádegið fóru allir með strætó niður í bæ, röltum aðeins þar um og hittum síðan bóndann.  Við fórum í skoðunarferð upp á Schlossberg og sáum Bismark minnismerkið sem er ákaflega merkilegt.

Á föstudegi fóru frúin og amman aðeins í bæinn, amman var svo skilin eftir þar á meðan hin voru sótt.  Við gengum aðeins um miðborgina, borðuðum Currywurst og fórum á leikvöllinn.  Síðan var slakað á heima á palli, krakkarnir léku sér í litlu lauginni þangað til gestirnir voru keyrðir á lestarstöðina.  Heimsókn lokið í þetta skiptið.

Á morgun, laugardag, fer fjölskyldan í sumarfrí til suð-austur Austurríkis.  Þar verður tjaldað í tæpa viku og vonandi margt skoðað.

Næst á dagskrá eru tvö ferðalög, eftir þau byrjar skólinn og svo fáum við næsta gest.