Útilega í Austurríki – varúð, löng færsla

Á laugardegi þurfti að útrétta helstu nauðsynjar vegna útilegunnar, en af stað komst fjölskyldan þó fyrir hádegið.  Pakkað var í bílinn, þó ekki meiru en svo að sæist út um allar rúður og allt með sem þurfti.

Leiðin lá austur, fyrst í átt til München, þaðan til Salzborgar og en skammt þaðan fórum við út af hraðbrautinni og ókum sveitavegi alla leið að Faak am See, sem er lítið þorp stutt frá Faakersee vatninu, næsta borg er Klagenfurt.  Við komum á tjaldstæðið undir kvöldmat, í litlu vatni þar við léku krakkar sér og einnig voru nokkrar endur á svamli.

Tjaldið reis og eftir matinn fengu krakkarnir að fara aðeins út í vatnið, það var frekar grunt, tvær rennibrautir voru í því og var ágætt að fá að busla eftir langan dag í bílnum.

Á sunnudegi var ákveðið að taka daginn rólega, krakkarnir léku sér í vatninu, tóku þátt í gullleit á vegum barnagæslu tjaldstæðisins og nutu þess að vera til.  Eftir hádegið fórum við í svolítinn bíltúr, fórum í sumarbobbraut í dal skammt frá Faakersee, þar fór stólalyfta upp í um 600 metra hæð og niður fórum við í 4 bobstólum á braut.  Svaka fjör þar.

Þaðan fórum við á safn á sveitabæ, þar var mikið af uppstoppuðum dýrum frá Evrópu, Afríku og Kanada.  Einnig voru ýmis dádýr, lama, þvottabirnir og önnur dýr í búrum eða á opnum svæðum sem við gátum gengið um.  Þar hófst myndasería af þeim skapmikla sem heitir „Ég vil ekki vera með á myndinni!“

Eftir að við komum til baka á tjaldstæðið horfðu krakkarnir á brúðuleikrit sem sýnt var fyrir framan búðina, sá skapmikli gafst að vísu upp um miðbikið þegar leikritið var orðið of hræðilegt – það var samt hægt að tala hann til svo hann horfði á til enda!

Á mánudegi ókum við suður til Slóveníu, við fórum hraðbraut og í gegnum Karawankengöngin, það var merkilegt að þar sem landamærin voru inni í fjallinu breyttust göngin, þau voru minna upplýst og dekkri Slóveníumegin.

Við ókum niður að vatni sem heitir Bled og er ákaflega fallegt, þar hittum við hóp af Íslendingum frá Akureyri, Húsavík, Dalvík og víðar.  Þau voru á ferðalagi með verkalýðsfélaginu Iðju.  Frá Bled fórum við suður til Ljubljana, gengum um miðborgina þar og tókum litla lest upp að kastalanum fyrir ofan borgina.

Á heimleiðinni var hugmyndin að fara í gegnum Wurzenpass, en það var heilmikil umferðartöf á þeirri leið svo við beygðum snarlega af hraðbrautinni og fórum þess í stað Ljubelj göngin.  Þau liggja frekar hátt í Ölpunum (yfir 1000 m hæð) og á leiðinni upp að þeim sáum við minnisvarða sem við ákváðum að stoppa við.  Þar stóð að þessi göng höfðu verið byggð af pólitískum föngum í Seinnastríði, þeir höfðu verið fluttir frá Mauthausen í þessar vinnubúðir, fangar sem voru of veikir til að vinna voru fluttir til baka og myrtir í aðalbúðunum í Austurríki.  Rústir búðanna eru enn til staðar og gengum við um þar og var áhrifamikið að keyra í gegnum göngin sjálf.

Krakkarnir léku sér svo við nýja félaga á tjaldstæðinu og við fórum á veitingastað um kvöldið.

Á þriðjudegi ókum við norður til Vínar, það var um fjögurra tíma keyrsla hvora leið, við gengum svolítið um borgina, sáum dómkirkju heilags Stefáns, fiðrildasafn, styttu af Franz Joseph og enduðum á því að ganga um kirkjugarð þar sem eru minnisvarðar um helstu tónskáld landsins auk ósmekklegasta grafreits sem við höfum á ævinni séð! (Sjá mynd).

Á heimleiðinni ókum við í gegnum svakalegt þrumuveður, rúðuþurrkurnar höfðu engan vegin við og það var fljót á veginum.  Við sáum í anda að aðkoman að tjaldstæðinu yrði rosaleg!  Þegar við komum þangað um miðnætti komum við krökkunum í ró, flestir svefnpokanna voru þurrir – en við sáum að dótið okkar sem hafði verið í miðrýminu var horfið!  Handklæðin sem höfðu hangið úti til þerris voru haugdrullug á borði fyrir utan og allt í drullu og bleytu.

Á meðan frúin reyndi að skola og hengja til þerris náði nágrannakona  tali af bóndanum og sagði að dótið okkar væri hjá þeim og við næsta húsbíl.  Við tókum dótið okkar og komum því í skjól í bílnum okkar og ákváðum að taka á málunum daginn eftir.

Á miðvikudegi hafði ætlunin verið að keyra niður til Ítalíu, en hætt var við þau plön.  Krakkarnir voru send í gæsluna sem var með aðstöðu inni  til að leika því svalt var þennan morguninn, en á meðan var sett í þvottavélar og reynt að þurrka og ganga frá dótinu okkar.

Þegar við þökkuðum nágrannanum fyrir að bjarga dótinu sagði hann okkur að veðrið hefði verið svo svakalegt að fljót hefði runnið í gegnum mitt tjaldið okkar, hann hefði hlaupið til og dregið dótið í skjól hjá sér og fengið annan mann til með sér að halda tjaldinu okkar svo það fyki ekki í burtu!  Veðrið stóð í 20 til 30 mínútur og neðri hluti tjaldstæðisins hafði verið eins og stöðuvatn, um 20 sm djúpt! Urðum við hjónin hugsi yfir því hvað hefði orðið um dótið okkar hefðum við lent í þessum aðstæðum á tjaldstæði á Íslandi.

Um miðjan dagin fórum við til Klagenfurt og fórum á skriðdýrasafn þar og í IKEA þar sem koddi frúarinnar hafði eyðilagst í bleytunni.

Á fimmtudegi gegnum við frá, leyfðum krökkunum að leika sér í vatninu á meðan við pökkuðum saman, ákveðið var að kíkja á Dreiländeneck sem var stutt frá okkur, en þegar þangað var komið sáum við að kláfurinn sem fer upp að þriggjalanda mörkunum var lokaður í hádeginu – einmitt þegar við vorum þar.

Við ókum sem leið lá eftir hraðbrautum alla leið til Dachau þar sem við höfðum ákveðið að stoppa, við komum þangað klukkan 5, akkúrat þegar safnið lokaði!  Við gengum samt um búðirnar og það var átakanlegt eins og við var að búast.  Þetta er saga sem ekki má gleymast og aldrei verða endurtekin.

Heim komum við seint að kvöldi eftir ánægjulega og merkilega útilegu.

Á föstudegi var þvottadagurinn mikli þar sem þvottavélin á tjaldstæðinu var afspyrnu léleg og þurfti að þvo bókstaflega allt sem farið hafði með, um kvöldið verður barnaafmæli, ferð á laugardegi og matargestir á sunnudegi.  Í næstu vikur stendur annað ferðalag fyrir dyrum.