Á þriðjudegi var skóli og leikskóli, sú sveimhuga fór í sína leikfimi og svo var heimanám unnið – ekkert heyrðist frá verkstæðinu út af bílnum fyrr en rétt fyrir lokun, búið var að skipta um bremsur og skoða hann en engin rafmagnsbilun fannst. Frúin gerði pönnukökur fyrir bóndann sem átti að fara í útivist með vinnunni á miðvikudegi.
Á miðvikudegi fór frúin og sótti bílinn, útréttaði vegna afmælis en þegar halda átti heim fór bíllinn ekki í gang. Bóndinn var ræstur úr vinnunni – blessunarlega var útivistin ekki fyrr en á fimmtudegi, svo hann gat sótt börnin. Bíllinn fór aftur á verkstæðið þegar hann fór í gang – biluninni lýst aftur, mjög nákvæmlega. Það átti að taka hálftíma að laga þetta – svo kom í ljós að það tæki lengri tíma. Frúin fór heim í strætó og bóndinn aftur í vinnuna. Heima var dúllað í heimanámi og leikjum – tölvan sett upp á ensku og office komið af stað.
Á fimmtudegi kom í ljós að eitthvað stykki við kúplinguna var ónýtt og það tæki viku að laga bílinn. Frúin hafði orð á því að hún hefði sennilega ekki skilið útskýringarnar neitt betur þó þær hefðu verið á íslensku, en þýski bílavarahlutaorðaforðinn er víst ekki kenndur í MA – eða var ekki í denn! Stelpurnar skemmtu sér vel í skólanum, fyrstu bekkingarnir mættu og 4. bekkur sýndi þeim leikrit. Bóndinn kom snemma heim út útivist svo hægt væri að sækja afmælisvistir úr búðinni.
Afmælisdagur rann upp – frumburðurinn 10 ára! Hún var vakin á hefðbundinn hátt, svo var það skóli með pönnsur og nammi. Hringt var af verkstæðinu og látið vita að kúplingin væri ekki farin, heldur eitthvað stykki við stýrisendann (eins og frúin hafði verið búin að útskýra á verkstæðinu) – það var dýrara stykki en það fyrrnefnda! Stelpurnar í 4. a mættu í afmæli, mjög fjölþjóðlegt; íslensk, kínversk, rúmensk, búlgörsk, þýsk, rússnesk og ein frá Erítreu! Þær skemmtu sér konunglega.
Á laugardegi gerðist sá merki atburður að hjónin slöppuðu af inni í herbergi þó að öll börnin væru vöknuð – bóndinn svaf og frúin las á meðan þau horfðu á sjónvarpið í stofunni! Eftir hádegið fór sá skapmikli til vinar síns og bóndinn fór með dæturnar í bíó í Rottenburg. Frúin nýtti tímann heima og vann í ritgerð.
Á sunnudegi var hátíð í borginni, fjölskyldan fór og tróðst um í mannhafinu í svolitla stund, endaði á leikvellinum og þaðan heim að undirbúa eftirrétt því við vorum boðin í mat til búlgarskra vina og var það indælis stund.
Það styttist í næsta gest, allir fjölskyldumeðlimir telja niður.