Prinsessur og hermaður

Yfirstrikunarvika að baki – allt svo, búið að strika töluvert af listanum sem gerður hefur verið yfir atburði, staði og ýmislegt sem eftir á að skoða/heimsækja/kaupa/gera…

Á mánudegi var skóli, leikskóli, íþróttaskóli og frjálsar – hefðbundinn langur mánudagur.  Stelpur hjóla ekki lengur á æfingar þar sem það er orðið of dimmt klukkan sjö til að þær hjóli einar heim.

Á þriðjudegi fór sú sveimhuga í sína leikfimi og seinni partinn kom amerískur vinur okkar með börnin sín (þýsk/íslenska eiginkonan var í Bæjaralandi) og steikti með okkur kleinur.  Hér var því bræla fram á miðviku- eða fimmtudag!

Á miðvikudegi var föndur í leikskólanum, gerð voru ljósker fyrir dag heilags Martins sem er um miðjan nóvember.

Á fimmtudegi fóru frúin og sú sveimhuga í skóleiðangur og það sama var gert með þeirri snöggu daginn eftir.

Á föstudegi fór sú snögga í reiðtíma – ekki var hægt að fara með þær systur báðar, þar sem tveir teymarar hefðu þá þurft að fylgja.  Enn sem fyrr var glæsileiki frúarinnar ekki dreginn í efa þar sem hún hálf dróst (rauð og blá í framan af mæði) utan í glæsilega jarpa hrossinu!  Vonir standa til að áður en yfir líkur verði frúin farin að geta hlaupið nokkra hringi án þess að standa á öndinni – ásamt því að dæturnar kunni að sitja hast brokk.  Eftir skókaup var fjárfest í boxi til að setja á topp bílsins, svo hægt verði að fara í almennilegar útilegur á Íslandi næsta sumar!

Á laugardegi var ræst snemma og stefnan tekin norður í höllina í Ludwigsburg.  Þar fóru krakkarnir í svokallað „Kinderreich“ eða barnaríkið þar sem þau máttu klæða sig uppá og upplifa hallarlíferni í tvær stundir – höfðu foreldrarnir líklega næstum því jafn gaman af tiltækinu og börnin.  Þegar því lauk var farið í skoðunarferð um nokkur af ríflega 460 herbergjum hallarinnar.  Eftir það fórum við út að skoða grasker – þemað í ár var lífið í sjónum og svo kíktum við á þá tvo hluta garðanna sem við komumst ekki yfir að skoða í fyrra.

Á sunnudegi var alþjóðlegt hádegissnarl hér niðri, kleinurnar fyrrnefndu voru okkar framlag.  Margt nýtt fólk mætti í þetta skiptið og ýmsir sem munu bara stoppa stutt.  Sú sveimhuga lék á þverflautu og frúin messaði yfir barnalækni frá Georgíu um nauðsyn táknmáls fyrir börn með kuðungsígræðslu.  Seinnipartinn var flugdrekum komið á loft, tekið til úti á palli og rusli hent.

Þá er ein vika eftir í skólanum fram að haustfríi – það stendur í viku og að því loknu eru ekki nema rúmlega sex vikur í jólafrí!

Tíminn líður, trúðu mér.