Á þriðjudegi skrapp frúin með börnin og ameríska vinkonu til Sinsheim en þar er bíla og tækjasafn eitt mikið og merkilegt. Voru þar til sýnis alls konar farartæki, fyrir loft og láð – á friðartímum og stríðs. Þótti öllum mikið til koma, hægt var að fara inn í margar flugvélar, þar á meðal Concord – bæði franska og rússneska!
Á miðvikudegi var mikil verslunarferð í íþróttavörubúð – krakkarnir græjuð upp til næstu mánaða. Frúin fór svo um kvöldið og keypti kassa og annað sem til þarf vegna flutninga og byrjaði að pakka – 5 kassar eru frágengnir, ekki verður upplýst hvað eigi eftir að pakka niður í marga til viðbótar!
Á fimmtudegi fórum við í bæinn, keyptum jólagjafir, pappír fyrir kortagerð og fórum á leikvöll uppi á Österberg.
Á föstudegi var lagt af stað í ferðalag, Kehl var fyrsti áfangastaðurinn, en það er systraborg Strasbourg – Þýskalands megin við Rín, vestan við Svartaskóg. Gistum við þar á farfuglaheimili.
Á laugardegi ókum við yfir brúna til Frakklands, fórum í síkjasiglingu í Strasbourg – það var ein besta síkjasigling sem við höfum prófað. Mjög skemmtileg og fróðleg ferð. Við gengum um miðborgina og ókum svo aðeins um sveitir Elsass héraðs þar sem flestar borgirnar heita þýskum nöfnum.
Á sunnudegi ókum við aftur yfir til Strasbourg, fórum í Evrópuhverfið og stoppuðum við Evrópuráðið, keyrðum þaðan í suður í Hunawir (Húnaver) þar sem við kíktum í lítinn en frábæran dýragarð. Þar voru otrar sem þurftu að veiða sér til matar (fengu lifandi fiska í vatnið hjá sér) og einhverjar bjórrottur sem voru ákaflega sprækar. Þaðan keyrðum við að minningarreit um Maginot línuna og svo heim. Um kvöldið vorum við boðin í mat til Ameríkananna í nr. 11.
Á mánudegi fór lífið aftur í sínar venjulegu skorður, en þegar sá skapmikli var sóttur stóðu yfir björgunaraðgerðir við leikskólann, ein móðir og einn faðir voru að bjarga eldsalamöndrum úr sjálfheldu við kjallarainngang. Sex stykkjum var bjargað í nestisbox og sleppt út í skóg.
Þá eru víst bara 8 vikur eftir hér í landi!