Við hjónin ræðum stundum ríkidæmi okkar, að eiga þessi yndælu börn okkar, hvort annað, fjölskyldur okkar og vini – það er algjörlega ómetanlegt! Nauðsynlegt að hafa smá væmni með öllum þessum jólasnjó hérna úti. 🙂
Á þriðjudegi bökuðum við piparkökur, bæði engiferkökur og kökur til að mála, svo allt yrði nú tilbúið fyrir miðvikudaginn.
Því á miðvikudegi komu 4 vinir krakkanna hingað eftir skóla og hér var skellt upp verkstæði jólasveinsins, yfir 200 piparkökur skreyttar, föndrað, leikið og pizzur etnar – allt með jólalög í bakgrunni. Yndislegur dagur!
Á fimmtudegi var dúllað og dundað að venju, föndrað fyrir skólaverkefni þeirrar sveimhuga og leikið.
Á föstudegi vöknuðum við í óvanalegri birtu – hér var alhvít jörð! Um 10 sm snjór og það snjóaði meiripart dagsins. Eftir skóla fóru krakkar út í brekku og þaðan aftur niður í skóla þar sem var lestrareftirmiðdagur og föndur.
Á laugardagsmorgni var gerður myndarstafli af pönnsum, krakkar fóru út að renna í tæpa 3 klukkutíma! Eftir hádegið keyrðum við niður til Mössingen þar sem íslensk/þýsk/ameríska fjölskyldan hafði boðið okkur til Þakkargjörðar. Áttum við þar yndislegan seinnipart og kvöld í faðmi góðra vina.
Á sunnudegi var ekið austur til Ulm að heimsækja kæra vini, var dagurinn þar ekki síðri þar sem var etið, spilað, jólamarkaður heimsóttur, börnin út að leika og etið og spilað svolítið meira.
Unaðsleg helgi í faðmi vina og fjölskyldu að baki – enn snjóar og samkvæmt spánni verður ekkert lát á því næstu tvær vikurnar.
Á mánudagsmorgni var sú snögga sótt úr skólanum hálf sloj – líklegast bara þreyta sem þjakar hana – svefn var það eina sem ekki var nóg af nýliðna helgi!
Njótið aðventunnar kæru vinir og fjölskylda – það ætlum við að gera hér, þó við teljum dagana í heimflutning í leiðinni.