Malí, súkkulaði og laufabrauð

Snjónum kyngir niður, allt hvítt og loðið af snjó, krákurnar nauðlenda með útbreidda vængi svo þær sökkvi ekki og krakkarnir renna sér með bros á vör – eru að koma jól???? 😉

Á þriðjudegi léku krakkar sér úti í snjónum og á miðvikudegi fórum við í stóru brekkuna hinum megin við engið.  Á fimmtudegi fórum við í bæinn og þaðan í búlgarskt barnaafmæli.  Á föstudegi var frostið tæp 10 stig svo við vorum bara inni.  Vikan snérist að mestu um snjó og meiri snjó, sá skapmikli er dreginn á sleða í leikskólann upp á hvurn dag og systur ganga dúðaðar í skólann.  Nógu vel klæddar til að geta dólað sér á heimleiðinni við að hrista yfir sig snjó af trjánum, gera engla og leika sér.

Leikskólakrakkarnir koma flestir með sleða eða þotur í leikskólann og allt liðið fer út í 1-2 klst á dag að renna sér í brekkunni utan við leikskólalóðina, svaka fjör.  Í skólanum fara krakkarnir í snjókast og aðra leiki í frímínútum – alla vega þau sem koma nægilega vel klædd í skólann.

Frúin var hálf slöpp þessa vikuna, kvefpest – ekkert alvarlegt.

Á laugardegi byrjaði dagurinn á undirbúningi fyrir Mali basar þeirrar sveimhuga.  Hennar bekkur heldur markað árlega þar sem peningum er safnað fyrir barnaskóla og munaðarleysingjahæli í Mali, undanfarna daga hefur mikið verið föndrað í skólanum og á mánudaginn var tóku foreldrar þátt í föndrinu.  Methagnaður var þetta árið, ríflega €1.100!

Eftir markaðinn fór fjölskyldan í bæinn, hér var súkkulaðimarkaður þar sem krakkarnir hlustuðu á sögu um súkkulaði álfkonuna og fengu að gera sitt eigið Ritter Sport.

Á sunnudegi var laufabrauðsgerð – kvöldin 3 á undan flöttu hjónin út um 70 kökur, sem skornar voru í góðum félagsskap.  Íslensk/þýsk/ameríska fjölskyldan kom, amerísk vinkona úr næsta húsi og fyrrverandi nágranninn kom með fjölskylduna í mat.  Verulega notalegur sunnudagseftirmiðdagur, nóg að bíta og brenna og samvera sem toppaði allt.  Líklegast var þetta í síðasta skipti sem við hittum þau íslensk/þýsk/amerísku í bili – þangað til þau koma næst til Íslands eða við hingað.

Það er víst komið að því að við þurfum að fara að kveðja vini, nú fer að fækka þeim stundum sem við höfum til að umgangast þetta yndælisfólk sem við höfum kynnst hér undanfarna 20 mánuði.

Frúin skrifar þetta sötrandi nýja uppáhaldsdrykkinn sinn, heitt vatnskakó með einum piparmyntumola frá Ritter Sport (After Eight virkar örugglega líka), mæli með því að þið fáið ykkur svona bolla og horfið út um gluggann á jólaljósin á meðan þið njótið drykkjarins.