Íslandsferð?

Á mánudegi var hringt úr skólanum og frúin beðin um að sækja þá snöggu, hún var slöpp, en ekki beint veik.  Því varð lítið úr íþróttum þann daginn.

Á þriðjudaginn var stúlkan hress og fór í skólann – fyrir utan að hún vaknaði fyrir klukkan 7  með blóðnasir., sá skapmikli heimsótti vin sinn seinnipartinn en stelpurnar lærðu og léku sér.  Frúin mundi eftir því að fara á kóræfingu, aðra vikuna í röð!

Aðfararnótt miðvikudags vaknaði sú snögga um 4 með blóðnasir – að öðru leiti hress og kát og fór í skólann.  Seinnipartinn var lært og dundað, aftur komu blóðnasir um kvöldið.

Á fimmtudegi fékk snótin enn einu sinni blóðnasir – á leiðinni í skólann þennan daginn! Læknirinn var heimsóttur og fengið sprey til að draga úr blæðingunum.  Eftir hádegið komu leikfélagar þess skapmikla í vöfflur og kakó og mamma þeirra í spjall.

Á föstudegi skrapp sá skapmikli aftur til vinar síns en kvenpeningurinn kíkti á jólamarkaðinn í bænum, það var ekki búið að setja allt upp, en samt ákaflega jólalegt og fallegt.  Eftir að jólaskórnir höfðu verið keyptir var mætt í alþjóðlega jólaboðið í kjallaranum.  Þar voru um 60 manns, góður matur og eftirréttir víða að úr heiminum – og jólasveinninn mætti með glaðning handa börnunum.

Á laugardegi ókum við í Europapark í norður Svartaskógi – sá skapmikli var hálf slappur á leiðinni og vildi snúa við – en hresstist heldur betur þegar við komum á staðinn!  Þar heimsóttum við Ísland, sem er ekki hluti af Norðurlöndunum.  Fórum í alls konar rússíbana og tæki – lítið sem ekkert af biðröðum en ákaflega mikið af fallegum ljósum.  Á heimleiðinni í gegnum Svartaskóg var tilfinningin svipuð því að aka Öxnadalsheiðina að vetri, frostþoka, myrkur, skafrenningur og þæfingur – allt gekk það vel.

Á sunnudegi var slakað á fram eftir degi en seinnipartinn fórum við til vinnufélaga bóndans þar sem smákökur voru bakaðar og skreyttar, mikið fjör – alltaf gaman að kíkja á kettlingana sem búa þar.

Aðfararnótt mánudags fékk sá skapmikli magakveisu, svo nóttin var svefnlítil – hann var veikur allan mánudaginn og fékk hita þegar leið á daginn.  Systurnar fóru í skóla og íþróttir en þar fyrir utan var lítið afrekað – nema sokkur 53 kláraðist fyrir kvöldmat!

Þá eru 3 vikur í dag þangað til við fljúgum til Íslands – tíminn líður hratt og hér þarf að gefa í við pökkun.