Veikindavika

Á þriðjudegi var sá skapmikil heima, frekar hress fram eftir degi en hélt svo áfram að kasta upp seinni partinn og aðfararnótt miðvikudags.  Sú sveimhuga fór í sína leikfimi, annars var dagurinn rólegur.

Á miðvikudegi vaknaði sú sveimhuga með magaverki, svo hún var heima og hélt bróður sínum og móður selskap á meðan sú snögga skottaðist í skólann.  Heldur hægt var yfir mannskapnum, en frúin fór að heiman og söng fyrir húðlækna með kórnum sínum fyrir kvöldmatinn.

Á fimmtudegi fóru yngri börnin tvö í fylgd föður síns, þar sem frúin var frekar sloj, sú sveimhuga var heima líka þar sem hún hafði fengið hita kvöldið áður.  Sú snögga fór til Reutlingen í leikhús með skólanum, þar sáu þau Jólaævintýri Dickens.  Frúin var of slöpp til að syngja fyrir gömlu frúrnar í franska félaginu.

Á föstudeginum voru loks allir hressir, það snjóaði all hressilega og seinnipartinn dreif frúin sig í húsmæðraorlof með búlgörsku vinkonu sinni til Reutlingen í verslunarferð.  Krakkarnir léku sér úti í snjónum.

Á laugardegi var liðið drifin yfir til Ulm og gamla vinkonan heimsótt – hún er á hækjum  og því hægt að hitta þau hjónaleysin.  Vorum við þar í góðu yfirlæti fram á kvöld, dundað við spilamennsku, útiveru og almenn huggulegheit.

Á sunnudegi var tekið pökkunarátak mikið – sá skapmikli skrapp til vinar síns og á meðan var herbergið hans og systra hans tæmt – eftir að horft var á Söguna endalausu sem systurnar fengu í skóinn.  Seinnipartinn sáum við brúðuleikrit um félagana Pétur og Brand og röltum um í miðbænun með búlgörsku vinunum.

Á mánudegi fóru systur með hrúgur af pönnukökum, kveðjustund í skólanum.  Eftir hádegið var okkur boðið í kaffi til móður bekkjarsystur þeirrar sveimhuga og yngri krakkarnir fóru í leikfimi.  Um morguninn rigndi um stund, sem breyttist svo í algjöra hundslappadrífu og hér kyngdi niður snjónum fram yfir kaffi en þá fór aftur að rigna.  Þannig er spáin næstu daga.

Meiri jólaundirbúningur er framundan – og síðustu 5 sokkarnir!