Jól og flutningar

Á þriðjudeginum var síðasti skóladagur systranna, þær komu klyfjaðar heim, meðal annars með afspyrnu fallegar minningabækur frá bekkjarfélögunum.  Sá skapmikli fór í síðustu heimsóknina til besta vinarins og verður mikill söknuður af því að hitta hann ekki oftar. Eftir hádegið voru bakaðar piparkökur (í annað sinn) og um kvöldið var tekið forskot á sæluna og jólatréð skreytt – þar sem það stoppar stutt við þessi jólin.  Síðustu dagatalssokkarnir kláruðust fyrir háttinn.

Á miðvikudagsmorgni komu bekkjarsystur þeirrar sveimhuga í heimsókn, með þeim voru piparkökur skreyttar, horft á Söguna endalausu og pizzum sporðrennt, að lokum voru þær kvaddar með virktum.  Eftir hádegið var útréttað og haldið áfram með jólaundirbúning.

Á Þorláksmessu fór sá skapmikli með pönnsur í leikskólann og kvaddi alla þar, frúin skrapp til fyrrverandi nágrannans að sækja þorsk í kvöldmatinn og þvo bílinn, þar sem allur snjór var farinn og hitinn skreið upp fyrir frostmark.  Eftir hádegið fórum við til þýskra vina í Glühwein og Kinderpunsch.  Fyrrverandi nágranninn og fjölskylda hennar komu í þorskinn og svo var restin af piparkökunum skreytt.

Á Aðfangadag byrjaði að snjóa, jólamaturinn var sóttur til kjötkaupmannsins og síðustu innkaupin kláruð – rétt um lokun verslana þegar uppgötvaðist að gleymst hafði að kaupa blómkálssúpuna í forrétt!  Amerísku vinir okkar eyddu jólunum með okkur og þau fóru líka með okkur í kirkjuna – börnin voru dregin á sleða, því það hafði kyngt niður snjó allan daginn.

Villisvínið smakkaðist dásamlega og gleðin sveimaði yfir öllum – allt of margir pakkar voru undir trénu miðað við fyrri áætlanir!  Þegar vaskað var upp eftir kvöldið stíflaðist eldhúsvaskurinn, svo allt jólauppvask var þvegið í bala.

Á jóladag hélt áfram að snjóa, við fórum út í stóru brekku en þar vær næstum því of mikill snjór til að hægt væri að renna – en gaman var þar.  Hamborgarhryggur (eða Kasseler Rucken eins og hann heitir hér) var eldaður, Tübingen Monopoly spilað, leikið í tölvum, horft á Pólarhraðlestina og almenn slökun.

Á annan í jólum skruppum við á skauta í Reutlingen með fyrrverandi nágrannanum og fjölskyldu, afgangar í matinn og dund.

Á mánudagsmorgni (kl. 4:30) lagði frúin af stað í langferð mikla, akandi til Rotterdam – ferðin gekk eins og í sögu og bíllinn var skilinn eftir á höfninni þar upp úr hádegi – flutningar hafnir.  Heimleiðin gekk vel, eftir ferð með 6 lestum og þremur strætóum skreið frúin í bælið um miðnætti.  Hér heima hafði allt gengið sinn vanagang, pakkað í kassa og dundað.

Á þriðjudegi kvaddi frúin þriðjudagskonurnar sínar og pakkað var í síðustu kassana – allt borið úr á svalir og áætlað að fara upp tröppurnar þar upp á götu með allt.  Trukkurinn sem kom var ekki á vetrardekkjum (frekar en aðrir trukkar hérlendis) og treysti sér ekki til að snúa við í götunni í öllum snjónum.  Hann lagði bílnum því neðan við húsið (á Nord Ring), svo bera þurfti allt niður um 20 tröppur (sem betur fer nýttist lyftan í hinar 20).  Ríflega 1 1/2 tíma tók að hlaða bílinn og þar með er búslóðin farin.  Ameríska vinkonan hjálpaði til og kínverska bekkjasystir þeirrar sveimhuga og pabbi hennar bættust í hópinn.  Sleði og lítil trilla léttu vinnuna töluvert.

Á miðvikudagsmorgni kom píparinn, vonandi verður hægt að vaska upp í eldhúsvaskanum næstu daga!  Íbúðin er tómleg – en sem betur fer (fyrir krakkana) lánuðu amerísku vinirnir okkur auka sjónvarp, svo hægt er að horfa á barnaefni.  Hér þarf að skúra, þrífa og ganga frá eftir flutningsvinnuna og verður það verkefni dagsins í dag (og næstu daga).