Á laugardagsmorguninn byrjuðum við á því að fara á flóamarkað niðri á hátíðarsvæði, rétt við útisundlaug borgarinnar, þar gerðum við fín kaup. Æfingahjól fyrir þann skapmikla og kjóll á frúna – auk gúmmulaðis fyrir alla, var það sem rataði með í bílinn eftir röltið. Seinnipart dagsins notaði fjölskyldan til að undirbúa kvöldið og njóta veðurblíðunnar.
Gestirnir mættu um hálf sjö, þá var borðað og svo hrúgaðist liðið fyrir framan kassann og kaus og kaus vilt og galið.
Þegar fyrstu 12 stigin voru í höfn vaknaði sú sveimhuga við fagnaðarlætin og fékk að skríða í foreldraból.
Sunnudagurinn var afspyrnu rólegur, 25°C var í skugga og vel yfir 30° í sólinni. Fullorðna fólkið sat mikið úti í sólinni og las á meðan krakkar æfðu sig á hjólum, línuskautum, hlaupahjólum og sullað í bala. Krakkatjaldi var skellt út og nesti etið þar og lífsins notið í algjörum rólegheitum þessa helgina.