Þegar búið var að koma þeim út úr húsi sem út áttu að fara keypti frúin litla sulllaug til að hafa úti á palli í góðu veðri, eftir gærdaginn var augljós þörfin á svoleiðis grip á heimilinu.
Heimasæturnar allar fóru að sækja þá sveimhuga í skólann og svo var gengið um Lasarett (?) hverfið í suður hluta borgarinnar, sú sveimhuga og sá skapmikli sáu fína leikvelli sem gaman var að prófa. Þaðan var svo farið að sækja þá snöggu.
Eftir kaffi hjólaði frúin niður í bæ til að athuga með stól á reiðhjólið fyrir þann skapmikla, en hjólið er svo fínt að svoleiðis græja kemst ekki fyrir þar! Leysa verður það mál með öðrum hætti.
Amman og bóndinn voru farin að púsla þegar frúin kom heim en það tókst að rífa sig frá því mikilvæga verki og skreppa í svolítinn göngutúr um nágrennið, skóg og akra bar við augu og svo var endað við bóndabæinn þar sem kýr, kálfar og hestar voru skoðaðir, bókað borð á veitingastaðnum þar og hunang (eigin framleiðsla þeirra) keypt. Sú snögga fór að syngja á þýsku og sú sveimhuga að búa til þýskar setningar. Aldeilis dásemdar dagur!