Bóndinn farinn og kominn

Vikan leið hratt, á mánudagskvöldið var haldin hér leiksýning, Mr. Bean sýndur, tveir leikendur, þrír þættir – ákaflega fyndið og kjánalegt eins og Mr. Bean á að vera.  🙂

Á þriðjudaginn fór sú sveimhuga í leikfimitíma eftir skóla og sá skapmikli líka, það er boðið upp á íþróttir í sal skólans eftir að honum líkur.  Sú sveimhuga kemst að í sínum hópi en hópur þess skapmikla er fullur svo við prófum annan tíma á mánudaginn.  Þá ætlar sú snögga líka að prófa.  Frúin skrapp líka í litlu Ameríku með fyrrverandi nágrannanum, barnlausar og alles – ekki leiðinlegt það!

Á miðvikudaginn var ótrúlega fallegt um að litast, um nóttina hafði greinilega snögg kólnað eftir svolitla bleytu svo trén voru þakin ískristöllum, alveg stórkostlegt að sjá!

Á fimmtudegi skrapp bóndinn í vinnuferð til Prag, börnum fannst svolítið erfitt að hann þurfti að fara, sá skapmikli hefur verið frekar ósáttur við leikskólann þessa vikuna og brottför pabbans bætti ekki úr með það.  Hann vildi fara heim til ömmu og afa Gumma og eiga heima þar en ekki hér, ekki alltaf í Tübingen.

Það lyftist brúnin á börnunum þegar þeim var sagt að amma og afi kæmu í heimsókn eftir 3 vikur og myndu stoppa í 10 daga.  Þeirri sveimhuga finnst það stuttur tími, sú snögga sagði að það væri jafn mikið og þegar við vorum á Íslandi og það var svolítið langt.  Sá snöggi vill að þau verði alltaf hér.

Á föstudaginn voru fimleikar hjá systrum og sund á eftir.

Á laugardegi var heimanámið klárað, púslað og skipst á púslum við Ameríkanana – gott að fá nýtt til að fást við.  Svo var bóndinn sóttur um kvöldmatarleitið og allir voða glaðir að fá hann heim.

Á sunnudegi fórum við í smá göngutúr um hverfið, stoppuðum á tveimur leikvöllum, sáum hænur og systur fóru í smá skógarævintýri.