Amma og afi í heimsókn

Vikan hefur liðið hratt – hér var „fasnet“ stemmning meiri hluta vikunnar. 🙂

Mánudagur og þriðjudagur voru hefðbundnir með leikskóla, skóla og leikfimitímum – og talið niður í gesti.

Á miðvikudag var karnival hjá þeim skapmikla, hann fór sem ljón og skemmti sér konunglega.

Á fimmtudag fóru sá skapmikli og frúin að sækja ömmu og afa til Frankfurt í snjókomu – sem var algjörlega vanhugsuð góðvild! Vegna snjókomu tók það allan daginn að keyra fram og til baka og við vorum ekki komin heim fyrr en um 8 um kvöldið!  Ef frúin hefði leyft gestunum að taka lestina hefðu þau líklegast komið heim löngu fyrr!  Snjókoma gerir umferðina hér ekki mjög hraðvirka!

Systur fóru til augnlæknis á meðan amma og afi voru sótt, sú sveimhuga þarf að koma aftur í apríl og fær vonandi gleraugu þá, en sú snögga er með fullkomna sjón.

Á föstudag var „Fasnet“ í skólanum, sú sveimhuga fór sem indíánastúlka og sú snögga sem austurlensk prinsessa – þær skemmtu sér frábærlega , við sóttum þær að skóla loknum og skoðuðum kennslustofurnar þeirra í leiðinni.  Um kvöldið fórum við út að borða á Bella Roma.

Á laugardag komu fyrrverandi nágranninn og fjölskylda, við fórum í stóru brekkuna og þau borðuðu síðan kvöldmat með okkur.

Á sunnudag skruppum við til Rottenburg á „Umzaug“ með vinnufélögum bóndans.  Það var ofsalega gaman og afraksturinn dágóður. Dagurinn endaði svo á því að sú snögga fékk gubbuna en sem betur fer ekki fyrr en við komum heim – hún missti því að mestu af því að borða slátrið sem var í kvöldmat.

Viðbót sem gleymdist:

Á heimleiðinni frá flugvellinum stoppuðum við í vegasjoppu til að borða, þar var fyrir rúta af indverskum ungmennum á þrítugsaldri.  Þau kolféllu fyrir þeim skapmikla, komu og báðu um að fá að taka myndir af honum, fá að halda á honum, struku á honum hár og kinnar, kysstu hann og knúsuðu og rifust um að halda á honum fyrir myndatökur!  Þegar fólkið fór gengu svo flestir framhjá borðinu okkar til að fá vink og bros – og jafnvel eina mynd að lokum.