Snemmkomið vor

Vorið kom á mánudagsmorguninn!

Þá var allt í einu allur snjór svo að segja farinn, nema þykkustu klakabunkarnir, hitinn kominn yfir frostmark – líka á nóttunni, fuglar farnir að syngja og vorgosar að stingast upp.

Skólinn byrjaði aftur og voru allir merkilega sáttir við hversdaginn, skólasund og leikfimi hjá yngri krökkunum.

Á þriðjudeginum var allt hefðbundið, myndir teknar af vorblómum, leikfimi hjá þeirri sveimhuga, hlýtt úti og grasið farið að grænka.

Á miðvikudaginn skruppum við til fyrrverandi nágrannans í smá heimsókn, alltaf jafn gott og notalegt að koma þangað.

Á fimmtudaginn fórum við í heimsókn til vina þess skapmikla frá leikskólanum, það eru systkini á deildinni hans, ríflega 3ja og 5 ára – það var mjög gaman að hitta þau og ætlum við að bjóða þeim hingað heim þegar fer að vora meira.  Svo átti að vera skóli hjá frúnni en tíminn féll niður vegna veikinda.

Á föstudag voru fimleikar hjá systrum og sund hjá fjölskyldunni áður en lagst var fyrir framan sjónvarpið og horft á Dumbo.

Á laugardag var hangsað fram eftir degi, hjólin sótt úr geymslunni, krakkar léku sér í snúsnú, á línuskautum og hjólum, úti í sandkassa og nutu lífsins.  Sú sveimhuga var á því að það væri nógu heitt fyrir stuttermabol – foreldrarnir voru ekki alveg sammála því, þó hitinn væri 13 stig – það er þó enn febrúar!

Á sunnudegi skruppum við til Stuttgart upp úr hádegi og fórum á Landsmuseum Würtemberg þar sem við sáum sýningu frá Sýrlandi hinu forna ásamt með vinnufélögum bóndans.  Það var mjög skemmtileg sýning og vel sett upp.  Það er rok þennan sunnudaginn, sennilega teljandi á fingrum annarrar handar sem veðrið hefur verið svona frá því við komum hingað.

Það gleymdist í síðustu tveimur bloggfærslum að geta þess að föstudagskvöldið 12. febrúar var flutt viðtal í barnaþættinum Leynifélagið hjá Rás 1 við systur tvær búsettar í Þýskalandi, þeirra er oft getið í þessu bloggi.  Þáttinn má enn hlusta á inni á heimasíðu RÚV undir barnaefni og svo Leynifélagið.

Systkinin eru öll farin að tala svo mikla þýsku að innfæddir eru gáttaðir, það kjaftar á þeim hver tuska við öll tækifæri.  Allir eru glaðir og sáttir og una vel við sitt hér á bæ.

Okkur hjónum miðar nokkuð í verkefnavinnunni – nóg eftir að gera og nægur tími til þess.