Áfram heldur Íslandsdvölin, á þriðjudegi brá frúin ásamt börnum undir sig betri fætinum og ók austur fyrir fjall í heimsókn til nöfnu og barna hennar. Ákaflega skemmtilegir endurfundir og ný frænka á þeim bæ. Þegar við komum aftur til Reykjavíkur var ein vinkona þeirrar sveimhuga sótt og skroppið í Húsdýragarðinn.
Á miðvikudegi fóru systur í heimsókn í skólann sinn, Víkurskóla, og á meðan fór frúin í heimsókn til vinkonu. Eftir hádegið var fjöruferð með yngri börnunum. Eftir að bóndinn kom heim var hann ásamt ömmunni og vinkonu þeirrar sveimhuga drifin í sund í Mosó þar sem hverfislaugin var í viðgerð.
Á fimmtudegi fékk sú snögga að prófa gæsluna eftir skólann, frúin heimsótti aðra vinkonu og sá nýtt barn (allt fullt af nýjum börnum hér heima og enn fleiri á leiðinni!). Eftir skóla fóru yngri börnin í pottinn á pallinum og leiddist það ekki. Um kvöldið fór frúin í saumó og hitti kærar vinkonur. Bóndinn hélt sinn fyrirlestur og var þar með kominn í frí.
Á föstudeginum sinnti frúin sínu námi og vinnu á meðan bóndinn var heima og um kvöldið fóru systur í næturgistingar til vinkvenna.
Á laugardegi voru stelpur sóttar og skroppið í hádegissnarl til mágsins og fjölskyldu, smá verslað og svaka Evróvision-/kosningapartý hjá stóra bróður – hreindýrakjöt og alles, húrra fyrir Lenu! Krakkarnir gistu svo þar.
Á sunnudegi var stórátak í heimsóknum, vinir hittir í snarli á Kjarvalsstöðum, skroppið suður með sjó að hitta eina frænku og svo í pönnsur til frænda. Kvöldmaturinn var snæddur í góðra vina hópi í Garðabæ þar sem aðeins var dustað af þýskunni í leiðinni – hún er enn á sínum stað.
Saga:
Sá skapmikli í sturtu með frúnni – veltir líkamshlutum fyrir sér, „af hverju ertu með svona?“ og bendir á brjóst frúarinnar. „Þarna fékkst þú mjólk að drekka þegar þú varst lítill.“ Með spurnarsvip á andlitinu segir hann þá „varst þú górilla og ég ungi?“