Slappleiki – föndurvinna

Þá er það reglan og hversdagsleikinn aftur, krakkar áttu ótrúlega auðvelt með að vakna og koma sér í skóla og leikskóla á mánudagsmorgni, sá skapmikli vildi reyndar helst vera heima hjá frúnni, en fékk engu ráðið – og skemmti sér konunglega með vinunum í leikskólanum.  Þau yngri fóru í leikfimina sína, en sú sveimhuga upplifði hræðilegt óréttlæti þegar sundtíminn var felldur niður og þeim gert að mæta til stærðfræðikennarans í staðinn! ÓSANNGJARNT! En það var samt gaman.

Á þriðjudegi var sá skapmikil ekki sáttur við að fara og vildi vera heima, hann hafði reyndar vaknað tvær nætur í röð og átt erfitt með að sofna aftur.  Hann fór þó í leikskólann og var mjög ánægður þegar þangað var komið, á heimleiðinni í hádeginu vældi hann hins vegar alla leiðina og var alveg ómögulegur, vildi leggja sig þegar hann kom heim og var skrítinn á allan hátt.  Enda kom á daginn seinni partinn að hann var kominn með hita.  Hann svaf aftur illa og var heima á miðvikudegi.

Þó nýttum við daginn og fórum í heimsókn til fyrrverandi nágrannans, þar sem drengurinn var sprækur og hlýtt úti (svona rétt tæpar þrjátíu gráður!), þar var ljúft að vanda.

Á fimmtudegi fóru allir í skóla og leikskóla og sá skapmikli hafði sofið vel (og frúin líka – en hún var orðin slöpp eftir órólegar nætur).  Eftir hádegið komu amerísku stelpurnar og sullað var í litlu lauginni úti á palli í blíðunni.  Blogg frúarinnar er nú komið út á prenti, kom í hús þennan dag og er mikill fengur af.  Frúin skrapp í leiðangur, ýmsar búðir og ruslahaugar skoðaðir og útkoman var dúkkuhús fyrir stelpurnar.

Á föstudegi voru fimleikar eftir skóla – og auðvitað upphaf HM – hér er allt um það bil að verða vitlaust vegna þess, fánar út um allt og meira að segja hægt að kaupa salernispappír í fánalitunum! (Bóndinn hélt nú að það væru einhver mörk til, en það er víst ekki).

Á laugardegi var hverfishátíð hér í Wanne, 3. bekkur var með um 40 mínútna söngdagskrá og stóðu sig með prýði, þarna var hoppukastali og sú snögga var best á óða vél-nautinu, sló sér eldri krökkum alveg við!  Þau voru öll máluð í framan og seinna um daginn fórum við á tjaldaland að skoða en keyptum ekkert.  Kastali var útbúinn fyrir drenginn á milli atriða þennan daginn, svo nú leika öll börn sér enn fallegar en fyrr!

Á sunnudegi ákváðum við að skreppa til Stuttgart, nánar tiltekið í Killesberg sem er fallegur garður með gosbrunnum, húsdýrum, leikvelli, blómabeðum og mikilli friðsæld.

Í þessum orðum skrifuðum eru Þjóðverjar að spila við Ástrali og ótrúlegt en satt þá hefur lítið heyrst að utan, það breytist sennilega fljótlega ef leikurinn fer eins og útlitið er í hálfleik!

Punktur:

Á þriðjudeginum leit sú ameríska við, þegar hún frétti að sá skapmikli væri slappur en hefði farið í leikskólann sagði hún: „og ertu með samviskubit?“ sem frúin svaraði auðvitað með „já!“ – þá rifjaðist upp fyrir frúnni saga sem sú ameríska hafði sagt af sér og vinkonu sinni um sama efni.  Vinkonan hafði sagt að mæður hefðu samviskubit vegna þess að þær væru mæður, það væri alltaf eitthvað sem mæður gætu hafa/hefðu átt að gera betur/fyrr/síðar/öðruvísi/lengur/skemur/______ (orð að eigin vali) og væru því með samviskubit yfir.  Frúin heldur að það sé eitthvað til í þessu.