Afmæli og gestir

Á mánudegi var allt eins og vanalega, krakkar í skóla/leikskóla og íþróttir hjá þeim yngri.  Stelpurnar hjóluðu á æfingu í frjálsum og einar heim eftir æfinguna, frúin fór á maraþonkvöld í foreldrafundum, fyrst hjá þeim skapmikla, fór þaðan of snemma og beint á fund fyrir þá snöggu.  Var þar í tvo og hálfan tíma!  Mikið sem þurfti að ræða.

Á þriðjudegi fór sú sveimhuga í leikfimi og sú snögga í heimsókn til vinkonu sinnar.  Sú sveimhuga fór svo í heimsókn til vinkonu svo frúin og sá skapmikli dunduðu bara tvö stóran part dagsins.

Á miðvikudegi tók heimanámið stóran part úr deginum en eftir það fór öll fjölskyldan á Cannstatt Volksfest – sem sagt Októberfest í Stuttgart.  Þar skemmtu allir sér konunglega, sá skapmikli týndist að vísu í augnablik og var það skelfilegt!  Krakkarnir sáu útúrdrukkið ungmenni og sjúkrabíl með ljósum koma að sækja hann og vita nú að ekki er gott að drekka of mikinn bjór – alla vega ekki á einu kvöldi!  Fjölskyldan fór í skemmtihús þar sem frúin hrundi í gólfið í stóru hamstrahjóli og komst hvorki lönd né strönd vegna hláturkasts og kútveltings – var það hápunktur kvöldsins.

Á fimmtudegi fór sá skapmikli til vinar síns í heimsókn á meðan tekið var til heima og gert klárt fyrir gestakomu.  Um kvöldið var óvenju stuttur foreldrafundur hjá þeirri sveimhuga, bara einn og hálfur tími!

Á föstudegi átti frúin afmæli, var vakin með söng og pakkaflóði – krakkarnir fengu öll myndavélar í tilefni dagsins og hafa verið dugleg að taka myndir síðan. Fyrir hádegið náði frúin að senda 3 kafla í yfirlestur til leiðbeinanda.  Svo var bakað og farið með stelpur upp að hesthúsum þar sem þær áttu að byrja í reiðtíma – það gekk hins vegar ekki í þetta skiptið vegna misskilnings, en þær byrja bara á þriðjudaginn í staðinn.  Um kvöldið kom fyrrverandi barnapían í mat og hér var spjallað fram yfir miðnætti.

Á laugardegi fór frúin til Frankfurt að sækja frænda sinn, kærustu hans og son þeirra.  Ferðirnar gengu áfallalaust og eftir að heim var komið fóru allir í góðan göngutúr upp að skógi og bóndabæ.

Á sunnudegi var slakað á fyrri partinn en gengið í nýja Lystigarðinn seinnipartinn, þar hittum við búlgörsku vinina.  Svo var pöntuð pizza í kvöldmat þegar krakkar voru búin að leika sér nægilega í laufhrúgum.

Fyrir liggur vika með gestum, eitthvað verður þeim sýnt og dúllast, reiðnámskeið og vonandi dýragarðsheimsókn.