Á mánudegi var hefðbundin dagskrá, nema hvað gestirnir voru sendir niður í bæ á eigin spýtur til að kíkja í búðir og á falleg hús. Krakkar stunduðu sitt nám og íþróttaiðkun.
Á þriðjudegi fór frúin með gestina til Reutlingen til að versla svolítið, skildi þau eftir þar til að taka lestina heim. Hér heima var lært og svo var reiðnámskeið hjá stúlkunum fyrir kvöldmat. Ekki þurfti að leggja á, því hestarnir þeirra voru í notkun. Sú sveimhuga fékk einn stóran en sú snögga einn lítinn. Þær þurftu að láta teyma undir sér, því ekki höfðu þær alveg lag á að sitja brokk – rasssæri var viðloðandi út vikuna.
Á miðvikudegi fóru gestirnir í bíltúr upp að Lichtenstein kastala og í kirkjuna í Zwiefalten, hér var lært og leikið – farið að verða svalt úti.
Á fimmtudegi fórum við öll niður í bæ eftir heimanám (bíllinn skrapp enn og aftur á verkstæði!). Dótabúð og bókabúð ásamt leikvelli voru helstu aðdráttaröflin í bænum í þetta skiptið. Ferðin endaði á Bella Roma, sem stóð undir væntingum enn og aftur.
Á föstudegi fóru gestirnir aftur í bæinn, systur fóru á reiðnámskeið – þar sem frúin þurfti að leggja á tvo risa á 20 mín – en þeir voru staðsettir í sitthvoru hesthúsinu! Mikil hlaup fram og til baka, en allt hafðist þetta. Þangað til það kom í ljós að frúin átti að teyma undir annarri dótturinni og dröslaðist hring eftir hring hangandi í hrossinu – sem brokkaði nokkra hringina (það hlýtur að hafa verið spaugileg sjón! Þessi hross eru engin smásmíði og þegar þau hlaupa út undan sér með svona stúf hangandi í taumunum!) Hún var því frekar búin þegar hjólað var heim. Sá skapmikli sat eins og dúkka og horfði á – og sofnaði sitjandi.
Um kvöldið skildi frúin gestina eftir heima og fór í saumaklúbb þar sem prjónað var úr íslenskum lopa og spjallað á þýsku fram til klukkan 1!
Á laugardegi fór allur hópurinn til Stuttgart í Wilhelma, það var rigningarsuddi, en gaman eins og alltaf. Á heimleiðinni var stoppað á tyrkneskum stað.
Á sunnudegi voru gestirnir svo keyrðir til Frankfurt – síðasta ferðin af þessu taginu í þessari dvöl hér. Seinnipartinn voru svo saumaðar húfur fyrir krakkana.
Nú eru bara tvær vikur í haustfrí krakkana, eitthvað þarf að gera þá.