Hversdagurinn líður

Þá er enn kominn mánudagur, bloggið hætt að birtast á sunnudögum í bili, einhver ægileg sunnudagskvöldsleti í gangi! Jamm.

Á þriðjudegi var sú sveimhuga í leikfimi og sú snögga hjá vinkonu sinni.  Þeim skapmikla leiddist ekki að fá að dúllast einn með mömmu sinni í smá stund.  Um kvöldið tókst hjónunum að gleyma því að þeim hafði verið boðið að koma á kóræfingu, annað hvort saman eða annað þeirra.

Á miðvikudegi mundum við eftir æfingunni. Heimalærdómur þeirrar sveimhuga var föndur, svo hér var föndrað fram eftir degi.  Foreldrafundur vegna þeirrar snöggu var um hádegið svo hún passaði bróður sinn á meðan henni var hrósað í hástert í skólanum, er ein af þeim betri í bekknum í þýsku! (Á mánudeginum hafði verið foreldrafundur hjá þeirri sveimhuga þar sem hún fékk líka mikið hrós fyrir stórkostlegar framfarir í þýsku).

Á fimmtudegi skrapp sá skapmikli til vinar síns og kvenpeningurinn föndraði svolítið meira, bóndinn var á ráðstefnu og kom ekki heim fyrr en eftir kvöldmat.

Á föstudegi fórum við í smá hjólatúr, stelpurnar á nýju og ekki svo nýju hjóli sem gáfust vel.  Sá skapmikli vildi samt drífa sig heim áður en nóttin kæmi, svo við rötuðum örugglega.  Bóndinn kom heim fyrir kvöldmat en var sendur út aftur til að taka þátt í hátíðarkvöldverði ráðstefnunnar.

Á laugardegi var bóndinn áfram að ráðstefnast, en frúin dreif sig með börnin í fylgd bekkjarkennara þeirrar sveimhuga (sem er líka stærðfræðikennari þeirrar snöggu), móður og dóttur hennar, á markað í Buttenhausen.  Það er þorp sem er mikið til þjónustuþorp fyrir aldraða og hreifihamlaða og þar selja heimamenn afurðir sínar fyrir jólin ár hvert.  Var þetta ákaflega skemmtileg ferð í Schwebísku Albana.  Bíllinn var að vísu með smá stæla.

Á sunnudegi kom fyrrverandi nágranninn með fjölskylduna í hádegissnarl og gönguferð í rigningunni um miðborgina og kastalann.  Skúffuköku og vöfflum var sporðrennt eftir göngutúrinn og Þorláksmessa plönuð.  Um kvöldið tóku hjónin forskot á jólasæluna og horfðu á „White Christmas“ til að koma sér í gírinn!

Á mánudagsmorgni var slydda sem breyttist í smá snjókomu, nóg til að gera grá/hvíta föl á allt annað en malbikið – svona í tilefni myndar sunnudagskvöldsins!  Spáð er slyddu/snjókomu næstu tvær vikurnar í það minnsta.  Krakkarnir bíða spennt eftir að það frysti svo snjóinn festi og hægt verði að fara út að renna!

Bíllinn fer í viðgerð – já, einu sinni enn, í næstu viku.  Hann hefur aldeilis séð fyrir því að ekki er mikið lagt fyrir á þessum bæ þetta árið!