Gleðilegt ár – á Íslandi (varúð – lööööng færsla)

Á miðvikudegi lagaðist vaskurinn – mikið hvað það getur glatt mann að geta vaskað upp í vaski!  Seinnipartinn tókum við lest til Reutlingen þar sem við fórum að sjá Jólasirkus með fyrrverandi nágrannanum og fjölskyldu.  Stelpurnar fengu að sitja á kameldýrum, en sá skapmikli hætti ekki á að sitja á dýri sem gæti spýtt á hann.  Þegar sirkusinn var búinn fóru þau þó öll á fílsbak.  Allir skemmtu sér ljómandi vel og var trúðurinn ekki minnsta ástæðan fyrir því.

Á fimmtudegi fórum við niður í bæ og röltum þar um og skiptum þeim jólagjöfum sem þurfti og enduðum svo á Bella Roma með sænsk/þýsk/ítölsku kunningjafjölskyldunni okkar.  Áttum við þar yndælis stund saman.

Á föstudegi var slakað á fram eftir degi og Maultaschen borðað í síðasta skiptið í þessari dvöl – maturinn var með fyrra fallinu því vinnufélagar bóndans voru heimsóttir um það leiti sem hátíðin gekk í garð.  Þar vorum við í góðum félagsskap, spiluðum morðingja og fleiri leiki með börnunum og skutum upp flugeldum öðru hvoru.  Við tókum strætó heim um kl. 1 og vorum heppin að fá sæti, því hann var fullur – voru börnin mjög misjafnlega vakandi þegar heim var komið.

Á nýjársdag var klárað að pakka því sem eftir var, viktað og endurraðað, fyrrverandi nágrannin kom með fjölskylduna til að kveðja.

Að morgni 2. janúar fóru síðurstu hlutirnir niður, sængur og koddar og fórum við út úr húsi um hádegið.  Tókum strætó pinklum hlaðin og fengum aðstoð við að koma öllu bæði inn í bílinn og inn á lestarstöðina niðri í bæ.  Við þurftun að skipta um lest í Stuttgart og taka aðra þaðan beint á flugstöðina í Frankfurt.  Við komumst um borð – með aðstoð og út úr lestinni aftur í Stuttgart, þar var smá bið eftir næstu lest.  Þegar hún átti að renna inn á stöðina kom í ljós að þessi ferð hafði verið felld niður!

Því voru góð ráð dýr – eftirgrennslan leiddi í ljós að best væri að hlaupa yfir 6 brautarpalla og komast í lest til Mannheim og skipta þar – að hlaupa á milli brautarpalla með 17 pinkla og 3 börn er ekki létt! Þegar við komum að lestinni var skellt í lás því allt var fullt.  Næsta plan var að taka lest sem færi í gegnum Frankfurt flugvöllinn á leið eitthvert norðar – en svo kom í ljós að hún var svo full að ekki nema þeir sem áttu bókað sæti komust í hana. Lokamöguleikinn var að taka lest á aðallestarstöðina í Frankfurt og skipta þar – eftir töluverðan troðning komumst við inn á gang þar – börnin settust á nokkra pinkla og við hjónin stóðum.

Í hátalarakerfinu var tilkynnt að lestin væri 200% setin, þar sem teknir höfðu verið farþegar úr þremur öðrum lestum!  (Okkur flaug í hug fréttir frá Filipseyjum þegar 100 manna ferjur sökkva með 300 farþegum). Þegar leiðin var ríflega hálfnum fækkaði í vagninum okkar og börnin komust í sæti og hluti farangurs á þar til gerða staði.  Í Frankfurt voru allar farangursgrindur uppteknar svo hlaðið var á alla handleggi og axlir og dröslast á milli palla.

Loksins komumst við þó á flugvöllinn, ríflega 2 tímum á eftir áætlun.  Við áttum bókað herbergi í klúbbhluta Sheraton með sér afgreiðslu á 9. hæð – við þangað upp til þess að koma þangað að læstum dyrum!  Aftur rúllað niður og í almennu afgreiðsluna – hótelið er í endurnýjun og álman sem við áttum pantað á var lokuð!  Við fengum þó herbergi á því verði sem við höfðum bókað – þó þau ættu að kosta ríflega helmingi meira – og öll þau fríðindi sem áttu að fylgja.

Börnin voru himinlifandi að fá loksins að gista á hóteli! Baðsloppar á baðherbergjum og sjónvarp í báðum herbergjum – algjör lúxus.  Stóra M-ið á flugvellinum sá fyrir kvöldmat og svo var horft á sjónvarp fram eftir.

Á mánudagsmorgni fengum við algjöran lúxus morgunverð og leiddist engum að velja allt sem hugurinn girntist, gengið frá öllu og gert upp – þar átti að vísu að rukka okkur fyrir morgunmatinn, en útprentað tilboðið bjargaði því.  Við kvöddum svo bóndann við vegabréfaeftirlitið (eftir „örlítil“ fjárútlát vegna yfirvigtar!). Sú sveimhuga var með skuggalegt Nintendo í töskunni sem reyndist þó ekki innihalda sprengiefni eftir nána skoðun.

Við fórum beint út að vél og komumst í loftið á réttum tíma – farþegar voru enn að ganga um borð þegar sá skapmikli sofnaði.

Í Keflavík beið móttökunefnd – afinn, mágkona og þrjú frændsystkini tóku á móti okkur og heima hjá afa og ömmu var slegið upp sláturveislu.  Jólagjafir sem enn lágu undir tré voru opnaðar og erfitt að sofna þetta kvöldið.

Á þriðjudegi fóru systur í skólann og sú snögga í gæslu.  Sá skapmikli fór í aðlögun í nýjum leikskóla, eftir heimsóknir á hagstofuna, umferðarstofu, Tryggingastofnun og vinnuna var litið á gamla leikskólann – þar var víst pláss, en ákaflega mikið vesen að koma drengnum í það!  Sú sveimhuga fór á æfingu í frjálsum.

Á miðvikudegi fór sá skapmikli aftur í aðlögun og á meðan á henni stóð tókst að koma honum inn í gamla leikskólann, bíllinn fékk útbúnar númeraplötur og komst í gegnum tollinn.  Systur voru ofsalega ánægðar í skólanum, smullu inn í sína hópa eins og þær hefðu varla farið í burtu.  Frúin skrapp til vinkonu sinnar um kvöldið.

Á fimmtudegi fór sá skapmikli í gamla leikskólann sinn og var einn þar í  tæpa 5 tíma og bíllinn var sóttur á höfnina.  Sú sveimhuga fór á æfingu og sú snögga fékk að vita hvar ein vinkvennanna ætti heima – hvað stúlkan héti fylgdi þó ekki sögunni.

Á föstudegi komst bíllinn aftur á íslensk númer, fékk tryggingar og frændsystkinin komu í gistingu.

Á laugardegi tóku systur þátt í handknattleiksmóti Fjölnis í Grafarvogi og skemmtu sér konunglega, um kvöldið var slegið upp litlujólum, hangikjet og hamborgarhryggur með öllu!

Á sunnudegi skrapp sú snögga til vinkonu sinnar (eftir að nafn hennar hafði verið grafið upp á Mentor), sú sveimhuga til sinnar vinkonu og sá skapmikli lék hér heima.

Á mánudegi var lúðrasveitaræfing hjá þeirri sveimhuga, frjálsar hjá báðum systrunum og frúin byrjaði að vinna!  Akstur og þvælingur byrjaður!  Skemmtu þær sér konunglega og drengurinn mjög sáttur við leikskólann – ekki síst við að eiga nafna á deildinni!

Á þriðjudegi fór frúin í skólann – sem og börnin, sú sveimhuga sést varla heimavið, þvælist með vinkonum sínum eftir skóla og við mæðurnar skiptumst á að keyra á æfingar.  Frúin skrapp með ömmunni í Zúmbu og verða þær æfingar stundaðar næstu vikurnar, tvisvar í viku.

Á miðvikudegi voru engar íþróttir!  Leikið og leikið fram að kvöldmat og enn svaka ánægja með skóla, leikskóla og vinnu.

Á fimmtudegi kom vinkona þeirrar snöggu í heimsókn og voru fagnaðarfundir þar – um kvöldið leit föðurbróðirinn við með gjafir og börn sem gaman var að sjá.

Á föstudegi gekk allt vel, búslóðin fór í gegnum tollun og kom heim á brettum, bílskúrinn orðinn smekkfullur.  Um kvöldið fór sú sveimhuga til vinkonu sinnar að gista, sú snögga vildi ekki vera minni manneskja og fékk að gista ein hjá frænda sínum og frænku.  Sá skapmikli vildi bara sofa hjá mömmu.

Á laugardagsmorgni hófst þýskunámskeið á bókasafninu í Hafnafirði – sú sveimhuga er kl 11, sú snögga kl 12 og sá skapmikli kl 13 – langur dagur í Hafnafirði næstu 14 laugardaga!  Sá skapmikli ætlaði ekki á neitt þýskunámskeið, hann væri ekki búinn að gleyma neinni þýsku og þyrfti ekki á þessu að halda!  Eftir að hafa setið með hendur í skauti og steinþegið fyrsta hálftímann brast þó stíflan hjá honum og er svaka spenna yfir því að fara aftur um næstu helgi hjá þeim öllum.