Fyrsti dagur í sumarfríi byrjaði vel – sofið út, eða svoleiðis, sú snögga kom inn til okkar korter yfir sjö! Allir komnir á fætur fyrir átta til að vera tilbúnir í dýragarðinn. Við náðum hálf tíu lestinni, skildum bóndann eftir heima í vinnunni og fórum á vit ævintýranna.
Dagurinn var fallegur og góður – látum myndirnar tala sínu máli.
Fyrir utan eitt atvik sem ekki var fest á filmu – við fórum inn til geitanna, þar má klappa þeim og gefa fóðurköggla sem maður kaupir í þar til gerðum sjálfsala. Frúin gerði það og geiturnar hópuðust í kringum græjuna, þar sem hún var komin með fulla lúku og umkringd geitum hófu yngri börnin tvö upp harmakvein mikið.
Sá skapmikli var hræddur og sú snögga hafði verið stönguð í afturendann (sennilegast meira hnoð en stönguð) og þá voru góð ráð dýr – losa sig við fóðrið til að geta huggað börnin og losnað við geiturnar. Allt gekk það upp, sú snögga var þó mun lengur að ná sér, en litli bróðir strauk henni um arminn og tautaði, „allt í lagi, þau eru góð“ aftur og aftur á milli þess sem hann sagði móður sinni að það væri í lagi með hann sjálfan og þetta væri gaman.
Bodensee á morgun, margt að sjá þar. Næsta blogg á sunnudag eða mánudag, hafið það gott um verslunarmannahelgina.