Páskaegg og folöld

Í færslu gærdagsins gleymdist að nefna að íslenski stúdentinn kom hingað á miðvikudagskvöldið, hann borðaði hjá okkur og kvaddi því hann fór heim í gær.  Hann sagði okkur að hingað komi stúdína í haust og datt okkur hjónum strax í hug að hún þyrfti að koma sem fyrst og oftast í mat og þá væri kannski hægt að fá hana í smá vinnu ef okkur langaði út kvöld og kvöld – vonandi gengur það upp.

Í dag fórum við á svolítið flakk, ein af þriðjudagskonunum, skólabókavörðurinn, Frau Klingenberg, bauðst til að taka ameríska kvenlegginn í ferð – við tróðum okkur í hópinn og sú pólska kom líka (hún er risi – og ekki bara miðað við frúna!).

Fyrra stoppið var í Erpfingen, þar er páskaeggjasafn eitt mikið (og bannað að taka myndir).  Egg skreytt með 30-40 mismunandi aðferðum og hátt í 900 stykki.  Þau voru stórfengleg mörg hver og skreytt með allt frá álímdum klippimyndum til krosssaumaðra eggja.  Virkilega gaman að skoða, en leiðsögnin fór algjörlega framhjá þeirri snöggu og þeim skapmikla – sem þýddi auðvitað að frúin náði ekki að fylgjast með nema með höppum og glöppum.

Eftir þessa heimsókn var klukkan ekki mjög margt, svo ákveðið var að heimsækja hestabúgarðinn við Gomadingen-Marbach.  Þar átti hertoginn von Würtemberg stærsta búgarð Schwebísku albanna á sextándu öld.  Í dag eru þar um 500 hross á ríkisreknum búgarði.  Fjölmörg folöld voru með mæðrum sínum og þau voru ótrúlega spök, vildu fá að éta gras hjá krökkunum og láta klappa sér.  Við skemmtum okkur konunglega öll.

Eftir hádegið var þrifið, farið í búð og krakkarnir léku sér í heillöngum fjölskylduleik þar sem farið var í ferðalög og hvaðeina.  Of heitt var til að leika úti, um þrjátíu gráður.