Tíminn flýgur og allt það

Ekki að það hafi verið svona mikið að gera, þvert á móti eiginlega.  Á laugardaginn vorum við hjónin mjög illa haldin af letisvínaflensunni ógurlegu og nenntum ekki að gera neitt.  Fórum þó á flóamarkað, í búð og út að borða á ofboðslega góðan indverskan stað, um kvöldið horfðum við á Popppunkt eins og venjulega á laugardagskvöldum.

Á sunnudaginn skrapp frúin í búð (það var sérstakur sunnudagsopnunar dagur – annars er allt lokað á sunnudögum hér) og keypti sér háhælaða götuskó, og það enga smá hæla, 8 sentimetra!

Um kaffileitið gengum við í heimsókn til íslensk/þýsk/amerískrar fjölskyldu sem býr hér í hverfinu, móðurafinn er íslenskur, móðuramman þýsk og pabbinn frá bandarísku Jómfrúreyjum í Karíbahafinu.  Þar vorum við boðin í kaffi og kvöldmat, þrjú börn eru á heimilinu og miðdrengurinn verður bekkjarbróðir þeirrar sveimhuga í haust.  Krakkar sem og fullorðnir skemmtu sér konunglega og verður dagstund með þessari fjölskyldu endurtekin við tækifæri.

Í gær ringdi mikið, stelpur fóru ekki á námskeið og frúin eyðilagði dekk.

Í morgun var kaffisamsæti kvennanna hér, pönnsur og ostakaka í boði, mikið spjallað og virkilega gaman. Sú pólska kom færandi hendi með útskorið páskaegg og litla öskju.  Eftir hádegið var búðarferð, spilamennska, prjón og annað hefðbundið.