Eitur og gönguferð

Föstudagurinn leið eins og þeir margir, börnum þrælað út við þrif (systur þurftu að þurrka úr gluggum og laga til í sínu herbergi – alveg uppgefnar eftir að hafa eytt öllum deginum í að aðstoða móður sína!).  Rólegheit seinnipartinn og hammarar í kvöldmat.

Í gær fórum við niður í dal þar sem kvennadeildin var með dag hinna opnu dyra – þar var hægt að sjá erfðaefni í smásjá, kaupa grillmat hjá slökkviliðinu og hoppa í þar til gerðum kastala.  Frúin rauk inn í miðbæ og útréttaði smá í leiðinni, hitti svo afganginn af fjölskyldunni á leikvellinum í Grasagarðinum.  Þar sagðist bóndinn hafa smakkað fallegu rauðu berin á grenitrénu við brúna og þau hefðu verið klístruð og voðalega sæt.  Þegar heim var komið lagðist frúin inn í rúm í smá stund, þar til bóndinn vakti hana og sagðist verða að skreppa niður á bráðamóttöku.  Þessi fallegu rauðu ber sem hann hafði smakkað væru með eitruðum steini og hann vildi láta athuga sig þó ekki fyndi hann fyrir einkennum.

Hálftíma síðar kom SMS með þeim skilaboðum að hann hefði fundið bráðamóttökuna – eins gott að þetta var ekki bráðatilfelli!  Hann kom svo heim heilu og höldnu en ráðlagt að láta þessi ber vera í framtíðinni, amk steinana.

Um kvöldið var svo horft á Grand Prix der Volksmusik í sjónvarpinu, sem er Evróvision þjóðlagatónlistar og þá aðallega Týrólatónlist.  Þýskaland, Austurríki, Sviss og Suður-Týról á Ítalíu kepptu eins og vanalega, fjögur lög frá hverju landi.  Bóndinn hefur bloggað ítarlega um þessa keppni.  Í stuttu máli – sá skapmikli dansaði undir fyrstu fjórum laganna og vildi svo fara inn í rúm áður en keppnin var búin, aðrir sátu í gegn og sáu Suður-Týrólana merja sigur á síðustu stigunum.  Átrúnaðargoð bóndans datt niður í annað sæti við sömu stigagjöf.

Í dag var vaknað í býtið og ekið til Fildorado sundlaugarinnar í samfloti við íslensk/þýsk/amerísku fjölskylduna.  Þar var synt og leikið sér fram að hádegi.  Heimavið undirbjó bóndinn eftirrétt dagsins, börn undirbjuggu listasýningu og svo var farið í ríflega 2 stunda göngutúr.  Leiðin er um 5 km löng, niður að Bebenhausen, inn Guldelbetal og upp að Heuberger Tor og svo heim aftur.  Allir voru þreyttir en sáttir að göngunni lokinni.  Þegar heim var komið skokkuðu bóndinn og stelpurnar upp á 13. hæð hússins við hliðina til að sjá útsýnið og taka myndir.

Eftir matinn var horft á sápuóperuþátt sem tekinn var upp á Íslandi, vakti upp minningar og ótta yngstu fjölskyldumeðlima þegar álfar og tröll létu slæma hluti gerast.  Allt endaði þetta þó vel að lokum.